Hoppa yfir valmynd
22. maí 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á Degi líffræðilegrar fjölbreytni, 22. maí 2008

Góðir gestir,

Velkomnir á morgunverðarfund í tilefni Dags líffræðilegrar fjölbreytni. Það hefur ekki oft verið haldið sérstaklega upp á þennan dag hér á Íslandi, en við ætlum að bæta úr því nú og þar kemur tvennt til. Dagurinn er nú helgaður landbúnaði og líffræðilegri fjölbreytni, sem minnir okkur á að við erum háð lífríkinu um okkar lífsbjörg og við viljum vekja athygli á þeim hluta þess sem við gefum yfirleitt minnstan gaum: Jarðveginum sem er undirstaða mestallrar fæðuframleiðslu heimsins og sem við Íslendingar höfðum að miklu leyti glatað. En einnig fögnum við hér því að stefnumörkun stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni hefur nú litið dagsins ljós eftir nokkuð langar fæðingarhríðir og ég vonast til þess að hún verði til þess að við eflum framkvæmd Samningsins um líffræðilega fjölbreytni hér á landi.

En hvað er eiginlega þessi "líffræðilega fjölbreytni"? Í raun má segja að hugtakið sé einfaldlega vísindalegt heiti yfir lífið sjálft. Það er samheiti yfir hin ýmsu og fjölbreyttu birtingarform lífsins, ekki einungis þær milljónir tegunda lífvera sem til eru á jörðinni, heldur líka samfélög þeirra og þann erfðabreytileika sem rúmast innan hverrar tegundar. Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni hefur að geyma grunnreglur um umgengni okkar við lífið á jörðinni, sem þjóðir heims hafa orðið ásáttar um. Það er síðan hvers ríkis að útfæra þessar reglur í sínum ranni og það er það sem við erum að gera með þeirri stefnumörkun sem nú hefur litið dagsins ljós.

Okkur ber í fyrsta lagi skylda til að vernda lífið á jörðinni. Jörðin er eina plánetan sem við þekkjum sem fóstrar líf. Lífheimurinn er ekki einungis merkilegur vegna fjölbreytni hinna milljóna tegunda lífvera, heldur ekki síður vegna flókinna tengsla lífveranna innbyrðis og við umhverfi sitt. Lífið hefur til dæmis haft áhrif á andrúmsloftið, samsetningu þess og hitastig og þrátt fyrir miklar framfarir í vísindum þekkjum við ekki endilega til hlítar alla þætti í hinum óraflókna vef lífheimsins. Ísland er ekki eyland í þessum vef, við þurfum til dæmis að gæta vel að þeim fuglategundum sem hingað koma til að verpa eða staldra við á leið til annarra heimkynna. Okkur ber að leggja sérstaka áherslu á að vernda þau svæði þar sem lífríkið er hvað ríkulegast og má þar nefna Mývatn - sem er kannski gjöfulasta stöðuvatn á sinni breiddargráðu á jörðinni - hálendisvinjar eins og Þjórsárver og hin stórbrotnu fuglabjörg í Vestmannaeyjum og Vestfjörðum og víðar.

Lífheimurinn sér okkur fyrir fæðu og mörgum öðrum af helstu þörfum okkar. Það er önnur skylda okkar gagnvart lífheiminum og okkur sjálfum og framtíðinni að nýta þessa auðlind á skynsamlegan og sjálfbæran hátt. Fáar þjóðir hafa lært þessa lexíu eins vel og við Íslendingar. Hinn græni lífhjúpur landsins er að stórum hluta í tætlum eftir ofnýtingu og uppblástur liðinna alda. Gengnar kynslóðir skildu ekki til fulls eðli hins viðkvæma eldfjallajarðvegs hér og verða ekki dregnar til ábyrgðar fyrir þá sök að vilja tryggja sér lífsviðurværi á þann hátt sem þær best kunnu. Við sem búum yfir betri þekkingu og tækni og efni berum meiri ábyrgð. Við megum ekki láta eins fara fyrir lífríki sjávar eins og skógunum og jarðveginum. Við þurfum að gæta fjöreggsins í hafinu um ókomna tíð og byggja sókn okkar í nytjastofna á vísindum og sjálfbærni.

Við þurfum líka að reyna að græða þau sár sem við höfum valdið. Það var stór áfangi í sögu umhverfisráðuneytisins þegar málefni og stofnanir skógræktar og landgræðslu fluttust til þess við síðustu stjórnarskipti. Þessar aldargömlu stofnanir búa ekki eingöngu yfir ríkulegri sögu og þekkingu, heldur vilja og þrótti til að halda áfram starfi sínu við að stöðva landeyðingu og græða landið. Ég sé fram á stórt verkefni í endurheimt í viðbót við skógrækt og landgræðslu, sem er endurheimt votlendis. Stór hluti framræsts votlendis er lítt eða ekkert nýttur og þar má endurreisa fjölbreytt vistkerfi. Við þurfum svo að efla þekkingu okkar á lífríki hafsbotnsins og skoða hvort við getum staðið okkur betur í að vernda kóralla og svampbotna og önnur samfélög djúpsins og kannski endurheimta líka sködduð vistkerfi á hafsbotni, sem kunna að gegna hlutverki í lífkeðju hafsins og viðkomu nytjastofna.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni fjallar um vernd og sjálfbæra nýtingu lífríkisins og sanngjarna skiptingu hagnaðar af erfðalindum. Stefnumörkunin sem hér verður kynnt tekur á öllum þessum þáttum og er tilraun til þess að gera framkvæmd ákvæða hans hér á landi markvissari og öflugri. Samningurinn þarf eins og aðrir slíkir að vera lifandi í huga og athöfnum þeirra sem hann varðar og því er vinna eins og sú sem hér verður kynnt gagnleg. Hún er ekki einungis afrakstur nefndarinnar sem ber ábyrgð á henni, heldur voru drög að henni kynnt á Umhverfisþingi síðastliðið haust og barst fjöldi athugasemda við hana, sem reynt var að taka tillit til. Ég vona að þeir fjölmörgu sem það gerðu hjálpi okkur einnig við að hrinda henni í framkvæmd og veita stjórnvöldum aðhald í þeim efnum.

Þessi dagur líffræðilegrar fjölbreytni er sérstaklega helgaður landbúnaði og minnir okkur á þá staðreynd að lífríkið er undirstaða okkar daglega brauðs og lífsviðurværis. Þegar við hugsum um vernd lífríkisins reikar hugurinn kannski til geirfuglsins eða tígrisdýra og pandabjarna og annarra dýra sem eru útdauð eða eru í útrýmingarhættu. Við leiðum síður hugann að moldinni undir fótum okkar og þess aragrúa af smásæju lífi sem þar býr. En þar er að finna í bókstaflegum sem óeiginlegum skilningi undirstöðu lífsins á landi og velferðar okkar mannanna. Við höfum glatað stórum hluta fósturmoldarinnar og viljum og verðum að endurheimta hana. Á heimsvísu er eyðimerkurmyndun og rýrnun jarðvegs eitt helsta böl sem mannkyni er búið, þótt það sé að miklu leyti bundið við ákveðin svæði jarðarkringlunnar. Margt bendir til þess að hækkandi matvöruverð sé ekki tímabundinn vandi, heldur birtingarmynd þróunar sem gæti haldið áfram með aukinni eftirspurn eftir mat og einkum kjöti, en takmörkuðu framboði ræktarlands.

Við þurfum að hlúa betur að moldinu og lífinu. Við erum aðeins ein tegund af milljónum og tilvera okkar er háð hinum. Jörðin fóstraði hinn viti borna mann eftir fjögurra milljarða ára tilraunastarfsemi með kvikt líf og við eigum ekki að halda okkur óbundin af lögmálum þess. Ég óska okkur öllum til hamingju með Dag líffræðilegrar fjölbreytni og nýja stefnumörkun um Samninginn og með þennan fund og vona að okkur Íslendingum auðnist að sýna í verki þá virðingu sem við þurfum að sýna lífinu, fegurð þess og fjölbreytni.

Takk fyrir,



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum