Hoppa yfir valmynd
3. maí 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Landverndar 2008

Góðir fundargestir.

Vernd náttúru og umhverfis er hvort tveggja í senn, staðbundið og hnattrænt verkefni. Á þeim forsendum þurfum við að nálgast það. Umhverfisvernd er verkefni einstaklinga og samfélaga, dagleg ögrun þar sem enginn er undanskilinn og allir bera sameiginlega ábyrgð. Ábyrgð gagnvart okkur sjálfum, gagnvart hvert öðru, gagnvart komandi kynslóðum, náttúru landsins og umheiminum. Til að axla hana þarf að verða hugarfarsbylting á Íslandi.

Á dögunum sótti okkur heim góður gestur. Fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, líka fyrrverandi verðandi forseti Bandaríkjanna, eins og hann sjálfur komst að orði. En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Undanfarin ár hefur þessi einstaklingur helgað líf sitt baráttunni gegn loftslagsbreytingum, ferðast um allan heim til að upplýsa og fræða almenning um áhrifin sem loftslagsbreytingar eru að hafa og munu hafa á náttúrufar, veðurfar og lífslíkur mannkynsins á jörðinni, ef við ekki grípum til róttækra aðgerða. Hingað var Al Gore líka kominn í þeim tilgangi. Í Háskólabíói hlýddu á hann hundruð manna, andaktug, þökkuðu boðskapinn með dynjandi lófataki og óku síðan á brott á stóru bílunum sínum.

Í tengslum við heimsóknina varð talsverð umræða og fjölmiðlaumfjöllun um loftslagsmálin. Sitt sýndist hverjum. Í ljós kom að enn finnast þeir á Íslandi sem efast um loftslagsbreytingar og neita að trúa því að breytingar á veðurfari og lífríki heims séu óeðlilegar eða af manna völdum. Efasemdarmenn finnast bæði í hópi íslenskra fræðimanna og íslenskra stjórnmálamanna. Þeim duga ekki niðurstöður mikils meirihluta alþjóðlega vísindasamfélagsins. Ekki heldur skilaboð alþjóðasamtaka eins og Sameinuðu þjóðanna eða heimsátoriteta eins og hagfræðingsins Nicholas Stern.

Í byrjun vikunnar sótti ég fund á vegum OECD, efnahags- og framfarastofnunar Evrópu. Meginviðfangsefni fundarins var að ræða nýútkomna skýrslu stofnunarinnar um stöðu umhverfismála og horfur fram til ársins 2030. Í skýrslunni er einkum horft til fimm megin verkefna í umhverfismálum: loftslagsbreytinga af manna völdum, verndar lífræðilegrar fjölbreytni, vatnsverndar, loftgæða, og meðhöndlunar úrgangs og hættulegra efna. Úttekt OECD lýsir því vel hvernig verkefnin fimm eru samofin, hvernig þróun á einu sviði hefur magnandi áhrif á önnur svið, bæði til góðs og til ills. Úttektin er gríðarlega metnaðarfull og felur í sér viðamikla kostnaðargreiningu. Niðurstaða hennar er samhljóma niðurstöðu IPCC, Al Gore, Nicholas Stern og svo margra annarra sem á undan og eftir þeim hafa tjáð sig um þróun umhverfismála í heiminum: Nefnilega sú, að mjög brýnt sé að grípa strax til veigamikilla aðgerða á öllum þessum sviðum. Það sem meira er, OECD telur að þó aðgerðirnar muni hafa í för með sér verulegan kostnað sé sá kostnaður sé mun minni en sá sem þjóðir heims munu bera á næstu árum og áratugum, ef ekkert verður að gert. Í skýrslunni kemur fram að áhrif nauðsynlegra aðgerða ef til þeirra er gripið sem fyrst verða óveruleg á þjóðarframleiðslu í heiminum fram til ársins 2030 eða um aðeins 1%. Aðgerðirnar kalla á alþjóðlega samstöðu og samvinnu iðnríkja og þróunarríkja auk samræmingar og samvinnu ráðuneyta, stofnana, atvinnulífs og frjálsra félagasamtaka innan hvers ríkis fyrir sig. Líka hér á landi.

Ágætu fundarmenn.

Víkjum aðeins frá hnattrænu verkefnunum og að þeim staðbundnu. Hugarfarsbyltingarinnar er víða þörf. Ekki síst þegar kemur að verndun íslenskrar náttúru. Lengst af voru þeir landar okkar sem töluðu fyrir náttúruvernd taldir heldur sérlundaðir og þeir sem tóku verulega tillit til umhverfisins í lífsháttum sínum í besta falli hálfskrýtnir. En á því hefur orðið mikil breyting. Ekki síst fyrir tilstilli félagasamtaka, ötula og áralanga baráttu samtaka eins og Landverndar. Framlag ykkar er ómetanlegt.

Íslendingar hafa lengi deilt um náttúru landsins, nýtingu hennar og verndun. Deilurnar hafa verið hatrammar og stundum mætti ætla að náttúruverndarbarátta á Íslandi snerist aðeins og eingöngu um spurninguna "álver eða ekki álver", að framtíðarsýnina um hið fagra Ísland megi sætta í "Helguvík eða ekki Helguvík". Því fer auðvitað fjarri. Vitanlega eru ákvarðanir um uppbyggingu og staðsetningu einstakra stóriðjuverkefna mikilvægar í samhengi umhverfisverndar, og á þeim hafa menn sterkar skoðanir, líka sú sem hér stendur. En umhverfisvernd og baráttan fyrir fegurra Íslandi er svo miklu víðtækari, hún snýst um svo margt fleira. Og það er ýmislegt að gerast, þó okkur finnist á stundum hlutirnir ganga of hægt.

Í mínum huga er mikilvægast að ná stjórn á þróuninni, að búa svo í haginn að ákvarðanir um landnotkun, nýtingu og vernd, séu teknar á yfirvegaðan og lýðræðislegan hátt. Of lengi hafa slíkar ákvarðanir verið allt of tilviljanakenndar og einkennst af skammsýni og auðlindagræðgi. Því þarf að breyta og að því er nú unnið.

Í upphafi þessa ríkisstjórnarsamstarfs skipuðum við iðnaðarráðherra verkefnastjórn sem falið hefur verið að undirbúa rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Verkefnastjórnin á að skila heildarmati á virkjunarkostum í lok árs 2009 og á grunni þess verður lögð fyrir Alþingi tillaga að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafls- og jarðvarmasvæði. Áhersla verður lögð á víðtækt samráð við almenning og hagsmunaaðila í þessu starfi. Útgáfa nýrra rannsóknaleyfa til virkjana hefur verið fryst á meðan á þessari vinnu stendur.

Ég mælti fyrr á þessu ári fyrir frumvarpi til nýrra skipulagslaga á Alþingi. Hér er um að ræða heildarendurskoðun þeirra laga og eru í frumvarpinu að finna ýmis nýmæli. Ein meginbreytingin er sú, að ríkisvaldinu er ætlað að leggja fram stefnumótun sína í skipulagsmálum sem varða almannahagsmuni með svokallaðri landsskipulagsáætlun. Slík stefnumótun tæki til landnýtingar sem ekki varðar eingöngu hagsmuni einstakra sveitarfélaga, heldur hagsmuni þjóðarinnar allrar. Landskipulag yrði þannig ákveðið leiðarljós í skipulagsvinnu sveitarstjórna og myndi einnig gegna mikilvægu hlutverki við samræmingu hinna ýmsu áætlana sem samþykktar eru á Alþingi, svo sem samgönguáætlunar, náttúruverndaráætlunar, byggðaáætlunar, og væntanlegrar rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Síðast en ekki síst myndi hún færa stjórnvöldum í hendur mikilvægt verkfæri til að vinna með markvissum hætti að umhverfisvernd og styrkja sjálfbæra þróun í sessi hér á landi.

Unnið er að nýrri náttúruverndaráætlun, en sú sem nú er í gildi rennur út á næsta ári. Of snemmt er að segja nákvæmlega til um innihald nýrrar áætlunar en þó liggur fyrir vilji ráðherra til að skoða ákveðin svæði, þ.m.t. Langasjó og vatnasvið Jökulsár á Fjöllum – sem munu falla inn í Vatnajökulsþjóðgarð - Torfajökulssvæðið, Kerlingarfjöll, Brennisteinsfjöll, Grændal, jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót. Þá liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar að stækka friðlandið í Þjórsárverum.

Ég hef einnig óskað eftir því að undirbúningur verði hafinn við að taka þrjú ný svæði inn á skrá Ramsar-samningsins um vernd votlendissvæða sem hafa alþjóðlega þýðingu, í viðbót við þau þrjú svæði sem eru nú þegar á þeirri skrá. Þessi nýju Ramsar-svæði eru: Breiðafjörður, Guðlaugstungur og Álfgeirstungur, og Eyjabakkar norðan Vatnajökuls. Öll þessi svæði eru eða verða friðlýst, en með því að setja þau á Ramsar-skrá njóta þau öflugri verndar en áður, sem alþjóðlega mikilsverð svæði.

Vatnajökulsþjóðgarður verður stofnaður í byrjun sumars, en unnið hefur verið sleitulaust að undirbúningi stofnunar hans í allan vetur. Vatnajökulsþjóðgarður verður stærsti þjóðgarður í Evrópu og sá staður í Norðurálfu – jafnvel í öllum heiminum – þar sem auðveldast er að sjá landmótunaröflin að störfum: eldvirkni, skriðjökla, og fallvötn. Stofnun þjóðgarðsins er stærsta náttúruverndarverkefni við Íslendingar höfum ráðist í. Lögð er áhersla á að byggja hann upp í samvinnu við heimamenn þannig að hann geti bæði laðað að ferðamenn í miklum mæli og tekið við þeim þannig að ágangur valdi ekki tjóni á viðkvæmri náttúru.

Góðir fundargestir.

Rammaáætlun, náttúrverndaráætlun, landsskipulag – allt eru þetta mikilvæg tæki til að efla náttúru- og umhverfisvernd hér á landi. Stjórntæki sem munu hjálpa okkur að snúa af leið stjórnlausrar auðlindanýtingar, í átt til skynsamlegri, sjálfbærari og betri umgengni við náttúruna og vistkerfi hennar. Án heilbrigðrar náttúru og þjónustu vistkerfa á mannskepnan enga möguleika. Það er staðreynd og afleiðingar hennar sem við þurfum öll að horfast í augu við. Í henni felst hugarfarsbyltingin. Og sú bylting verður ekki aðeins fyrir tilstilli stjórntækja eða stjórnvalda. Hún verður aðeins að veruleika með þrotlausri, öflugri uppfræðslu og umræðu um nauðsyn náttúru- og umhverfisverndar. Þar liggur okkar hlutverk, okkar ábyrgð.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum