Hvítbókarvefur
Hvítbók

Umsagnarferli vegna Hvítbókar stendur til 15. desember

Opið umsagnarferli vegna Hvítbókar um löggjöf til verndar náttúru Íslands er nú hafið. Umsagnir um bókina skulu berast umhverfisráðuneytinu fyrir 15. desember næstkomandi en að því loknu hefst vinna við gerð frumvarps um breytingar á náttúruverndarlögum.

Í hvítbókinni er m.a. fjallað um nýjar aðferðir og viðhorf sem hafa rutt sér til rúms í náttúruvernd víða um heim og settar eru fram tillögur um hvernig koma megi þessum aðferðum og hugmyndum inn í íslenska löggjöf. Lögð er áhersla á að útfæra meginregur umhverfisréttar í nýjum náttúruverndarlögum, fjallað er ítarlega um friðlýsingar og annars konar verndaraðgerðir hér á landi, vatn, almannarétt og svo mætti lengi telja.

Við endurskoðun náttúruverndarlaga verða framkomnar athugasemdir við hvítbókina hafðar til hliðsjónar auk þeirrar miklu og góðu umræðu sem fram fór um hvítbókina á Umhverfisþingi, sem haldið var á Selfossi þann 14. október sl.

Hvítbókina má nálgast í rafrænu formi á heimasíðu umhverfisráðuneytisins (tengill) eða kaupa í pappírsformi í Bóksölu stúdenta í Háskólatorgi.

 Umsagnir vegna hvítbókar skal senda á netfangið postur@umhverfisraduneyti.is eða á:

Umhverfisráðuneytið

Skuggasund 1

150 Reykjavík