Hoppa yfir valmynd
18. febrúar 2009 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aflvaki á erfiðum tímum

Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir

Íslendingar tóku um síðustu áramót við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Sumum kannað virðast það ærið verkefni fyrir litla þjóð að leiða svo umfangsmikið svæðasamstarf á sama tíma og hún er að vinna sig út úr mestu fjármálakreppu sem á henni hefur dunið. En þá ber að líta til þess að margir eru til að lyfta undir byrðar þegar á reynir, því Norðurlandasamstarfið stendur á sterkum stoðum og er svo samofið allri starfsemi norrænu ríkisstjórnanna. Íslendingar hafa því fullan hug á því að framfylgja eins vel og þeim er unnt metnaðarfullri formennskudagskrá á árinu og koma forgangsverkefnum sínum að í ráðum og nefndum, enda er ávinningurinn ótvíræður eins og margoft hefur sýnt sig.

Frumkvöðlará öllum skólastigum

Meginstefnumið íslendinga voru ákveðin með tilliti til stefnuyfirlýsingar norrænu forsætisráðherranna fyrir norrænt samstarf frá árinu 2007 um sóknarfæri fyrir Norðurlönd í ljósi hnattvæðingar. Stefnt er að því að styrkja samkeppnisstöðu Norðurlanda, m.a. með því að efla rannsóknir og nýsköpun, ekki síst á sviði loftslags- ogumhverfismála. Engin ástæða þykir til að slá af þessum markmiðum þótt á móti blási í efnahagsmálum hjá öllum norrænu þjóðunum, þær ætla sér að vera áfram í forystu í umhverfismálum og hafa frumkvæði á alþjóðavettvangi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og annarri umhverfisvá. Unnið er að því á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar að tveggja ára samningaferli um nýjan alþjóðlegan loftslagssáttmála ljúki með nýjum sáttmála á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í árslok.

Í ljósi hnattvæðingarstefnunnar munu Íslendingar leitast við að styrkja þverfaglegt samstarf stjórnvalda, stofnana og fyrirtækja til að stuðla að rannsóknum og frumkvöðlastarfsemi. Frjó hugsun, áræði og sköpunargleði er forsenda sprotastarfs í atvinnulífi. Því ætlum við að beita okkur fyrir þverfaglegu samstarfi sem miðar að því að efla frumkvöðlamenningu á öllum stigum skólakerfisins. Sjónum verður sérstaklega beint að gildi listmennta og mikilvægis þess að skapa flæði milli listgreina og hefðbundinna fræðigreina til að kveikja hugmyndir og búa til farveg fyrir frumkvöðla úr skólakerfinu og út í atvinnulífið.

Metnaðarfull verkefni

Á formennskuári verður m.a. ráðist í tvö metnaðarfull verkefni sem snúa að sameiginlegum hagsmunamálum norrænna þjóða. Fyrst ber að nefna að vinna hefst við að setja saman vákort fyrir Norður-Atlantshafiðsem á að vera grundvöllur fyrir samhæfðar viðbragðsáætlanir komi til umhverfisslysa á hafsvæðunum á milli Noregs, Færeyja, islands og Grænlands. Brýn þörf er á slíku vákorti í ljósi aukinna siglinga með hættulegan farm á norðlægum hafsvæðum og vaxandi ásóknar í náttúruauðlindir á norðurslóð. Gert er ráð fyrir að vinnu við vákortið verði lokið í árslok 2010.

Annað verkefni af öðrum toga en ekki síður mikilvægt, er samanburðarrannsókn á tilhögun fæðingar- og foreldraorlofs á Norðurlöndum. Á vettvangi ESB er nú horft til Norðurlanda og sérstaklega Íslands hvað varðar fyrirkomulag þessara mála. Það segir sína sögu að Íslendingar munu leiða þessa rannsókn, því hér á landi er bæði til sérþekking og mannauður til fræðastarfs í jafnréttismálum.

Mörgum öðrum þverfaglegum verkefnum verður ýtt úr vör á formennskuári og jafnframt verður efnt tilfjölmargra viðburða, ráðstefna, málþinga og sýninga. Frekari upplýsingar um formennskuáætlunina eru á www.norden.2009.

Sjálfbær þróun

Verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórna byggist meðal annars á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem er í beinu samhengi við áherslur í norrænu samstarfi og forgangsverkefni Íslendinga á formennskuári. Sjálfbær þróun er hugmyndafræði með félagslegri, efnahagslegri og umhverfispólitískri vídd, hugmyndafræði sem getur vísað okkur veg við nauðsynlega endurskoðun á gildismati. Ný framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun tekur gildi í norrænu samstarfi á formennskuári Íslendinga og verður hún rauður þráður í starfsemi allra fagnefnda. Meginverkefnið er að stemma stigu við loftslagsbreytingum og ætla íslendingar m.a. að hafa frumkvæði aðýmsum verkefnum sem stuðla að kolefnisbindingu, s.s.skógrækt og endurheimt skemmdra vistkerfa. 

Samstarf í vesturvegi

Það felast því mörg tækifæri í norrænu og norður-evrópsku samstarfi þótt verulega blási á móti í efnahagsmálum um þessar mundir. Virk þátttaka í Norðurlandasamstarfi er bæði leið til endurreisnar og til að hafa áhrif til góðs í samstarfi við grannþjóðir. Á fundi norrænu samstarfsráðherranna í desember sl. kom fram skýr vilji til að aðstoða Íslendinga á erfiðleikatímum. Framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og vinnuhópur mun setja fram tillögur um tilhögun þessarar aðstoðar sem miðar að því að íslensk ungmenni geti verið virk í norrænu samstarfi og notið þeirra gæða sem það hefur skapað.Við skulum því hafa það hugfast að við stöndum ekki ein – við erum hluti af hinni norrænu fjölskyldu og þar hjálpumst við að. Þar erum við ekki síður veitendur en þiggjendur með hugmyndaauðgi, sérþekkingu og reynslu.

Höfundur erumhverfis- og samstarfsráðherra.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum