Hoppa yfir valmynd
7. maí 2008 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sáðmenn sandanna valin besta fræðibók ársins 2007

Við afhendingu viðurkenningar fyrir bestu fræðibókina 2007
Afhending viðurkenningar fyrir bestu fræðibók ársins 2007.

Sáðmenn sandanna, Saga landgræðslu á Íslandi 1907-2007 hefur verið valin besta fræðibók ársins 2007 af Upplýsingu, Félagi bókasafns- og upplýsingafræða. Það var Landgræðsla ríkisins sem stóð að útgáfu bókarinnar í tilefni af 100 ára afmæli skipulegs landgræðslustarfs á Íslandi.

Í rökstuðningi matsnefndar segir meðal annars að mikill fengur sé að bókinni því Sáðmenn sandanna sé aðgengileg handbók um landgræðslu á Íslandi sem standist jafnframt fræðilegar kröfur. Bókin hafi mikið notagildi fyrir þá sem vilji kynna sér sögu elstu landgræðslustofnunar í heiminum og hvernig tekist var á við gróður- og jarðvegseyðingu með samstilltu átaki víða um land. Matsnefndin ber einnig lof á stíl bókarinnar sem hún segir fallegan og málfar frjótt og lifandi líkt og gróðurinn sem fjallað er um. Þá segir að fagmennska og vandvirkni hafa verið í fyrirrúmi við allan frágang.

Við afhendingu viðurkenningarinnar þakkaði Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri Upplýsingu, Félagi bókasafns-og upplýsingafræða fyrir þennan mikla heiður og Friðriki Olgeirssyni fyrir frábær og vönduð vinnubrögð. Hann segir viðurkenninguna útgefendum mikils virði því hún staðfesti að sú alúð sem lögð var í ritun bókarinnar og útgáfu sé metin að verðleikum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum