Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýtt samkomulag um Staðardagskrá 21

Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra, Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrita samkomulag um Staðardagskrá 21.
Staðardagskrá 21

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, endurnýjuðu í dag samkomulag um samstarf um gerð Staðardagskrár 21 í íslenskum sveitarfélögum. Samstarfið hófst árið 1998 og er nú endurnýjað til ársloka 2009.

Á sama tíma undirrituðu umhverfisráðherra og Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra samkomulag um sérstakt átak í tengslum við byggðaáætlun til að styðja við innleiðingu Staðardagskrár 21 í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni. Samstarf ráðuneytanna um þetta hófst 2003 og hefur skilað miklum árangri. Alls hafa átta sveitarstjórnir í nokkrum af fámennustu sveitarfélögum landsins samþykkt fyrstu útgáfu af Staðardagskrá 21.

Landsskrifstofu SD21 í Borgarnesi hefur frá upphafi veitt sveitarfélögum faglega ráðgjöf og hafa nú 63 af 79 sveitarfélögum landsins tekið þátt í Staðardagskrárstarfinu með einum eða öðrum hætti frá því að starfið hófst árið 1998.

Hvað er Staðardagskrá 21?

Staðardagskrá 21 er áætlun sem öllum sveitarstjórnum heimsins er ætlað að gera í samræmi við ályktun Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Ríó de Janeiró 1992. Nánar tiltekið er hér um að ræða áætlun um þau verk sem vinna þarf í hverju samfélagi um sig til að nálgast markmiðið um sjálfbæra þróun á 21. öldinni, þ.e.a.s. þróun sem tryggir komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.

Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál í venjulegum skilningi, heldur er henni ætlað að taka jafnframt tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Í raun og veru er Staðardagskrá 21 fyrst og fremst velferðaráætlun.

Staðardagskrá 21 er ekki einkamál sveitarstjórna. Samkvæmt samþykkt Ríóráðstefnunnar ber að vinna verkið í samráði við íbúana á hverjum stað og með þátttöku atvinnulífs og félagasamtaka.  Staðardagskrá 21 er þannig áætlun alls samfélagsins.

Vinnu við gerð Staðardagskrár 21 lýkur aldrei, þó að stórum áfanga sé náð þegar 1. útgáfa hennar hefur verið lögð fram og samþykkt í sveitarstjórn. Með samþykkt sveitarstjórnar er Staðardagskráin orðin að formlegu stefnumótunarplaggi sem hrinda ber í framkvæmd. Staðardagskráin þarf að vera í stöðugri endurskoðun í takt við breytta tíma og nýjar áherslur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum