Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á reglugerð um flugeldasýningar og brennur

Flugeldar
Reglugerð um flugeldasýningar hefur verið breytt.

Umhverfisráðherra hefur samþykkt breytingar á reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Breytingarnar fela í sér að nú þarf ekki lengur að sækja um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar vegna flugeldasýningar á tímabilinu 28. desember til 6. janúar að báðum dögunum meðtöldum. Eftir sem áður er þess krafist aðra daga ársins. Að vandlega athugðu máli er talið rétt að falla frá starfsleyfisskyldu fyrir flugeldasýningar á þeim tíma sem almenn sala og notkun skotelda er heimil skv. ákvæðum reglugerðar nr. 952/2003, um skotelda. Samkvæmt upplýsingum frá innflutningsaðilum er magn flugelda sem notað er við sýningar lítið miðað við það magn sem selt er til almennings og skotið er upp á tímabilinu frá 28. desember til 6. janúar. Í ljósi þess má telja að mengun sem stafar af flugeldasýningum á þessu tímabili sé hverfandi miðað við heildarumhverfisáhrif þess að leyfa almenna sölu og notkun á skoteldum á þessu tímabili. Því er ekki talið nauðsynlegt að fá sérstakt samþykki heilbrigðisnefndar, í formi tímabundins starfsleyfi, fyrir einstökum sýningum á því tímabili sem reglugerð um skotelda tiltekur. Sömu rök gilda ekki á öðrum tímum ársins.

Þá hefur þeim lið reglugerðarinnar sem fjallar um brennur verið breytt á þann hátt að nú þarf að sækja um starfsleyfi til heilbrigðisnefndar fyrir brennur sem ætla má að standi yfir lengur en í tvær klukkustundir. Hingað til hafa allar brennur krafist starfsleyfis.

Breytingarnar öðlast gildi við birtingu hennar í Stjórnartíðindum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum