Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra leggur til samnorrænt loftslagslíkan

Jónína Bjartmarz
Jónína Bjartmarz

Á fundi norrænu umhverfisráðherranna á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn í gær 1. nóvember, voru loftslagmál mjög til umræðu. Á fundinum kynnti Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra hugmynd þess efnis að Norðurlöndin tækju upp samnorrænt loftslagslíkan. Hugmyndin kom fram á alþjóðlegri ráðstefnu um hafstrauma og loftslagsmál sem umhverfisráðuneytið og fleiri ráðuneyta héldu hér á landi í september síðastliðnum.

Líkanið myndi gera vísindamönnum kleift að spá í og rannsaka breytingar á loftslagi norðurslóða. Norrænu umhverfisráðherrarnir samþykktu að fela Íslandi og Noregi að skoða þessa hugmynd í sameiningu og taka málið aftur upp á næsta fundi ráðherranna.

Umhverfisráðherrar Norðurlandanna voru sammála um að ná þurfi samstöðu um harðari aðgerðir á alþjóðavísu til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2012. Orkuframleiðsla og orkunotkun hafa mest áhrif á heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndunum eins og víðast annars staðar. Þess vegna var samhljómur á meðal umhverfisráðherranna á fundinum um að mikilvægustu aðgerðirnar til að draga úr losun koltvísýrings (CO²) út í andrúmsloftið væru aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa og minni orkunotkun. Umhverfisráðherrarnir viðurkenndu að aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda séu komnar of skammt á veg og veðurfarsbreytingar séu nú þegar staðreynd.

Norðurlöndin munu beina spjótum sínum á næstunni að sameiginlegum aðgerðum og áætlunum í loftslagsmálum. Þannig hefur norræna ráðherranefndin sett af stað vinnu sem miðar að því að kortleggja hvaða áhrif 2 gráðu hlýnun hefði í för með sér á Norðurlöndunum. Veðurfarsbreytingar munu hafa ólík áhrif á einstökum svæðum allt frá Grænlandi austur til Finlands og Eystrasalts, en eitt og annað er þó sameiginlegt sem gefur fullt tilefni til samstarfs landanna. Má þar nefna að íbúar Norðurlandanna kunna að finna fyrir aukinni tíðni illviðra, hærri meðalhita og hækkun sjávarborðs.

Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á að færeyski haffræðingurinn Bogi Hansen tók við Norrænu umhverfisverðlaununum á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn, en Bogi hefur verið leiðandi í rannsóknum á breytingum á hafstraumum og áhrifum þeirra á veðurfar á norðlægum slóðum. Bogi var á meðal fyrirlesara á fyrrnefndri ráðstefnu umhverfisráðuneytisins í haust.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum