Hoppa yfir valmynd
20. október 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundi lokið um varnir gegn mengun sjávar frá landi

Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri stýrir umræðum
GPA

Í dag lýkur fundi ríkja um alþjóðlega framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi sem fram fór í Peking dagana 16.- 20. október á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Fulltrúar 104 ríkja sátu fundinn auk fjölmargra alþjóðastofnana. Þetta er eina alþjóðlega samþykktin sem til er um þetta efni sem tekur til allra ríkja heims.

Á fundinum hefur ríkt almenn ánægja með framkvæmd áætlunarinnar enda ljóst að nokkur árangur hefur náðst í takmörkun mengunar sjávar frá landi. Sá árangur er einkum á sviði þrávirkra lífrænna efna og olíumengunar. Hinsvegar hefur mengun vegna losunar skolps aukist, svo og næringarefnamengun, einkum frá landbúnaði, og nokkur aukning er talin hafa orðið vegna losunar þungmálma. Eyðilegging búsvæða í hafi er einnig vaxandi vandamál. Með hliðsjón af fyrirsjáanlegri fjölgun íbúa á strandsvæðum, einkum í þróunarríkjunum á næstu áratugum er ljóst að auka þarf verulega aðgerðir gagnvart þessum vanda á næstu árum.

Málefni smárra eyríkja hafa verið í brennidepli hér á ráðstefnunni. Fulltrúar þeirra hafa lagt áherslu á að iðnríkin veiti þeim aukinn stuðning, bæði fjárhagslegan og tæknilegan.

Í yfirlýsingu fundarins eru ríki hvött til að hraða framkvæmd áætlunarinnar og að auka samhæfingu og samræma aðgerðir innan landa til að takast á við mengun hafsins. Einnig er lögð áhersla á að nauðsynlegt sé að tengja nánar saman stjórnun ferskvatnsauðlinda við aðgerðir gegn mengun hafsins. Áhersla er lögð á að beita vistkerfanálgun til að hægt sé að ná fram þeim markmiðum um sjálfbæra þróun sem sett voru fram á Jóhannesarborgar ráðstefnunni um sjálfbæra þróun. Mikilvægt sé að ríki leggi mat á þann efnahagslega ávinning sem felst í framkvæmd áætlunarinnar til að auka betur skilning á mikilvægi þessara aðgerða. Auka þarf vöktun til að betur sé hægt að fylgjast með árangri áætlunarinnar.  

Lagt er til að markmið alþjóðlegra samninga verði fléttuð inn í áætlunina, svo sem Ramsar samningurinn um votlendi, samningurinn um líffræðilega fjölbreytni og Stokkhólmssamningurinn sem tekur á málefnum þrávirkra lífrænna efna.

Ísland hefur tekið virkan þátt í ráðstefnunni. Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri stjórnaði vinnuhópi sem fjallaði um fjármögnun áætlunarinnar og íslenska sendinefndin kom sjónarmiðum Íslendinga á framfæri á aðalfundum ráðstefnunnar. 

Ísland átti stóran þátt í að koma framkvæmdaáætluninni af stað og síðasti undirbúningsfundur fyrir samþykkt áætlunarinnar var haldinn í Reykjavík í mars 1995, en áætlunin var samþykkt í Washington í nóvember sama ár.  

Fulltrúar Íslands á fundinum voru Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Sesselja Bjarnadóttir, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu.

Skýrslu um árangur Íslendinga við framkvæmd áætlunar um varnir gegn mengun sjávar frá landi á tímabilinu 2001 til 2006 má lesa hér.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum