Hoppa yfir valmynd
15. janúar 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra heimilar sorpurðun í Fíflholtum eða Jörfa með skilyrðum

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur staðfest úrskurð skipulagsstjóra frá 12. september 1997 og fallist á fyrirhugaða urðun úrgangs í landi Fíflholta eða Jörfa á Mýrum með skilyrðum. Annars vegar eru ákvæði um malarnám, en þar er m.a. krafist að efnistaka fari aðeins fram á tilgreindum svæðum og að unnið verði að frágangi í áföngum þannig að aldrei verði ófrágengin sár sem eru stærri en sem nemur eins árs efnistöku. Hins vegar er krafist að gerð verði framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis, þannig að votlendissvæði verði endurreist til að vega upp á móti þeim svæðum sem skerðast vegna sorpurðunarstaðarins og skal það gert á fyrsta ári framkvæmda.

Umhverfisráðherra úrskurðaði í febrúar 1997 að fara þyrfti fram frekara mat á umhverfisáhrifum vegna urðunar sorps á Vesturlandi, þar sem gera skyldi athuganir á umhverfisáhrifum malartekju vegna sorpurðunarinnar og möguleikum til þess að vega á móti umhverfisröskun vegna eyðingar votlendis. Eftir að það mat lá fyrir heimilaði skipulagsstjóri ríkisins framkvæmdir með skilyrðum 12 september sl. Úrskurður skipulagsstjóra var kærður til umhverfisráðherra og liggur úrskurður hans nú fyrir.

Í niðurstöðu ráðuneytisins er fallist á sjónarmið kærenda að malarnámið muni valda sjónmengun við þjóðveginn út á Snæfellsnes, en talið að halda megi sjónmengun í lágmarki með skipulagðri efnistöku og frágangi svæðisins í áföngum og eru hert skilyrði um frágang vegna malarnáms. Hafa skal samráð við Náttúruvernd ríkisins um efnistöku og frágang lands að henni lokinni. Framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis skal liggja fyrir fyrir 1. júní nk., en það skal m.a. gera grein fyrir aðgerðum og tilgreina viðkomandi svæði nákvæmlega, auk þess að gera grein fyrir legu sigvatnsskurðar frá urðunarstaðnum og þurrkunaráhrifum hans.

 

Fréttatilkynning nr. 4/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum