Hoppa yfir valmynd
5. september 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðstefna um loftslagsbreytingar, hafstrauma og vistkerfi í Norður-Atlantshafi

Ráðstefna um loftslagsbreytingar, hafstrauma og vistkerfi í Norður-Atlantshafi verður haldin á Hótel Nordica í Reykjavík dagana 11.-12. september. Á henni munu um 20 vísindamenn frá Íslandi og sex öðrum löndum kynna rannsóknir sem varða möguleg áhrif loftslagsbreytinga á straumakerfi Norður-Atlantshafs og lífríki þess. Markmið ráðstefnunnar er að kynna nýjustu og bestu þekkingu um samspil hafsins og loftslags á Norður-Atlantshafinu og leita bestu svara við spurningum sem varpað hefur verið fram um hugsanleg áhrif loftslagsbreytinga á Golfstrauminn og aðra lykilþætti í umhverfinu.

Ráðstefnunni er skipt í þrjá hluta, þar sem gefið verður yfirlit yfir stöðu þekkingar varðandi loftslagsbreytingar, hafstrauma og vistkerfi sjávar í Norður-Atlantshafi. Sérstök áhersla verður lögð á að kynna niðurstöður nýjustu rannsókna og hvaða þýðingu þær hafa fyrir skilning á hugsanlegum áhrifum loftslagsbreytinga á Golfstrauminn, útbreiðslu hafíss á Norðurslóðum og á lífríki hafsins og útbreiðslu fiskistofna. Í lokin verða umræður, sem munu að hluta snúast um spurningar um stöðu þekkingar okkar á loftslagi og hafstraumum á Norður-Atlantshafi og forgangsverkefni í rannsóknum í nánustu framtíð. Að baki þeim býr stærri spurning, sem á erindi við alla, þ.e. hvort hætta sé á mikilli röskun á hafstraumum í Norður-Atlantshafi vegna loftslagsbreytinga á komandi áratugum, sem hefði mikil áhrif á lífríki og samfélög á svæðinu. Umræðurnar beinast því ekki eingöngu að vísindamönnum, heldur að fjölmiðlum og öllum þeim láta sig framtíðina varða.

 

Ráðstefnan fer fram á ensku og er opinbert heiti hennar: North Atlantic Climate and Ecosystems: A Current Threat? Umhverfisráðuneytið í samvinnu við menntamálaráðuneytið, sjávarútvegsráðuneytið og utanríkisráðuneytið stendur fyrir ráðstefnuninni. Ríkisstjórn Íslands og Norræna ráðherranefndin styrkja framkvæmd ráðstefnunnar, svo og rannsóknaverkefnið Vestnordisk Oceanklima. Kynning á niðurstöðum þess verkefnis verður veigamikill þáttur í ráðstefnunni. Þar kemur fram þekkingarstaða hvað varðar líkön af víxlverkun loftslags og hafsins í nyrsta hluta Norður-Atlantshafsins, en miklar framfarir hafa orðið á þeim vettvangi.

 

Ráðstefnan er öllum opin.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum