Hoppa yfir valmynd
14. mars 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Staðfesting á úrskurði um mat á umhverfisáhrifum álvers og rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði


Skipulagsstofnun féllst á í úrskurði sínum 31. ágúst 2001 með tveimur skilyrðum byggingu allt að 420.000 tonna álvers og 233.000 tonna rafskautaverksmiðju. Tvær kærur bárust ráðuneytinu, önnur frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og hin frá Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST). Kæruatriðin lutu einkum að því að fyrirhugað álver og rafskautaverksmiðja muni hafa í för með sér mikla mengun á stóru svæði og að við mengunarvarnir verði ekki gerð krafa um bestu fáanlega tækni.

Að mati ráðuneytisins hefur ekkert komið fram um umhverfisáhrif af völdum mengunar á loftgæði eða lífríki sjávar sem gefur tilefni til að leggjast gegn framkvæmdinni. Ráðuneytið telur að fyrirliggjandi veðurgögn séu fullnægjandi til að gera varfærna loftmengunarspá fyrir fyrirhugaða framkvæmd og ákvarða mörk þynningarsvæðis. Nauðsynlegt er hins vegar að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti innan sem utan þynningarsvæðis og sannreyna þannig hvort loftmengunarspá gangi eftir.

Að mati ráðuneytisins uppfyllir Reyðarál hf. ákvæði íslenskra laga og reglugerða og alþjóðlegra viðmiðana um notkun bestu fáanlegrar tækni í álveri og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði. Helstu umhverfisáhrif verksmiðjunnar tengjast mengun vegna starfseminnar og ber að tryggja í starfsleyfi, sem nú er í vinnslu hjá Hollustuvernd ríkisins, að uppfyllt verði öll skilyrði laga og reglna um losunarmörk.

Það er niðurstaða ráðuneytisins að umhverfisáhrif álvers og rafskautaverksmiðju í Reyðarfirði hafi verið lýst á fullnægjandi hátt í matsskýrslu framkvæmdaraðila og úrskurði Skipulagsstofnunar. Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 31. ágúst 2001 er því staðfestur.

Úrskurðinn má nálgast í heild sinni á slóðinni www.rettarheimild.is

Fréttatilkynning nr. 3/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum