Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Heimsókn umhverfisráðherra í Sellafield


Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra mun þriðjudaginn 5. nóvember heimsækja kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield á Norður Englandi í boði breskra stjórnvalda. Í heimsókninni í verksmiðjuna mun umhverfisráðherra sérstaklega kynna sér þá starfsemi sem veldur losun geislavirkra efna út í umhverfið og berast hingað til lands. Eins og kunnugt er hafa íslensk stjórnvöld um langa hríð þrýst á bresk stjórnvöld um að herða kröfur á hendur verksmiðjunni þannig að losun frá henni valdi ekki aukinni geislamengun í Norður Atlantshafi. Þó geislamengun í sjó og sjávarfangi hér við land sé mjög lítil og langt undir heilsufars viðmiðunarmörkum, þá er það mjög mikilvægt að halda geislamengun í algjöru lágmarki á Íslandsmiðum nú og í framtíðinni. Ekki síst á það við um markaðssetningu íslenskra sjávarafurða.

Umhverfisráðherra mun í heimsókninni hitta æðstu stjórnendur verksmiðjunnar og gera þeim grein fyrir þessum sjónarmiðum og hinum miklu hagsmunum sem í húfi eru. Með ráðherra í för verða Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri og Þorsteinn Pálsson sendiherra.

 

Fréttatilkynning nr. 25/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum