Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norðurlandaráðherrar mótmæla mengun frá Sellafield

Umhverfisráðherrar Norðurlanda hafa sent John Prescott, umhverfisráðherra Bretlands, bréf, þar sem þess er krafist að losun geislavirka efnisins teknesíum-99 frá kjarnorkuendurvinnsluverinu í Sellafield verði stöðvuð. Þá lýsa ráðherrarnir yfir áhyggjum vegna beiðni eigenda Sellafield um leyfi fyrir aukinni losun á ákveðnum geislavirkum efnum út í andrúmsloftið, þó svo að þeir segist ætla að draga samhliða úr annarri losun.

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra gerði mótmæli Norðurlanda vegna starfseminnar í Sellafield að umræðuefni í ræðu sinni á norrænu umhverfisráðstefnunni í Gautaborg. Hann sagði Norðurlöndin leggja mikla áherslu á að losun teknesíums í hafið yrði stöðvuð og að Bretar tækju tillit til alþjóðlegra skuldbindinga og sjónarmiða nágrannalanda áður en frekari ákvarðanir um leyfilega losun frá Sellafield yrðu teknar. Bresk stjórnvöld hlytu að þurfa að taka tillit til rökstudds álits Norðurlandaþjóðanna í þessu máli.

Í bréfi ráðherranna til Prescotts er bent á að sum Norðurlandanna byggi afkomu sína að stórum hluta á fiskveiðum og heilbrigðu umhverfi sjávar, en samt sem áður hafi bresk stjórnvöld leyft aukna losun geislavirkra efna frá kjarnorkuendurvinnslustöðvunum í Sellafield og Dounreay í trássi við mótmæli Norðurlandanna. Í viðamikilli skýrslu um ástand umhverfisins á Norðurheimskautssvæðinu, sem kom út í fyrra, kom fram að Sellafield-verið væri helsta uppspretta geislamengunar á svæðinu, þar sem geislavirkur úrgangur frá því bærist norður með vindum og hafstraumum. Þá hefur teknesíum mælst í vaxandi magni sl. tvö ár við strendur Noregs í sjó, þangi og skeldýrum. Bresk stjórnvöld eru beðin um að stöðva losun teknesíums-99 frá Sellafield, a.m.k. þar til betri tækni finnst til þess að draga úr menguninni og athuganir hafa farið fram á hugsanlegum áhrifum efnisins á umhverfið og hvort og hvernig það gæti borist í menn.

Fréttatilkynning nr. 12/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum