Hoppa yfir valmynd
4. apríl 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra á ráðherrafundi OECD um umhverfis- og þróunarmál

Sigríður Anna Þórðardóttir, Lena Sommestad og Tómas Ingi Olrich á fundi umhverfis- og þróunarráðherra OECD
Sigríður Anna Þórðardóttir, Lena Sommestad og Tómas Ingi Olrich á fundi umhverfis- og þróunarráðherra OECD
  • Mikilvægt að umhverfis- og þróunarmál séu skoðuð í samhengi
  • OECD líti til aðlögunar að loftslagsbreytingum í þróunarsamvinnu
  • Umhverfisráðherra bendir á að skilgreining eignarréttar geti aðstoðað við umhverfisvernd í þróunarríkjunum

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra lagði áherslu á sérstöðu Íslands og mikilvægi eignarréttar á fundi umhverfis- og þróunarráðherra Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, sem haldinn var í dag, þriðjudaginn 4. apríl. Á fundinum var rætt um umhverfismál og þróunarmál, tengslin þar á milli og mikilvægi þess að horft sé til umhverfismála þegar rætt er um baráttuna gegn fátækt í heiminum. Á fundinum var ennfremur rætt um skipulag alþjóðastofnana á þessu sviði og hvernig auka megi skilvirkni þess starfs sem unnið er í þessum málaflokkum í heiminum.

Aðlögun að loftslagsbreytingum var meðal viðfangsefna fundarins, sem beindi því til OECD að líta til þessa þáttar í þróunarsamvinnu. Ennfremur að efla þekkingu á þessu sviði, meðal annars um kostnað og ávinning af aðlögum, og að fara yfir mögulegar slæmar afleiðingar af loftslagsbreytingum í þróunarríkjunum.

Í máli Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra kom fram að fyrir eitt hundrað árum hefði Ísland verið sárafátækt land. Ríkidæmi þess nú byggist, samkvæmt samantekt Alþjóðabankans, að stórum hluta á nýtingu náttúruauðlinda og sé að því leyti líkara þróunarríki en venjulegu OECD-ríki. Umhverfisráðherra sagði að Íslendingar hefðu nýtt sér náttúruauðlindir landsins, sérstaklega fiskistofna og jarðhita, til að komast út úr fátæktinni og mörg þróunarríki gætu beitt sömu aðferð nú. Varúð í umhverfismálum sé ekki íþyngjandi í þessu sambandi, heldur þvert á móti undirstaða langtímavaxtar. Eitt af lykilatriðunum í að ná árangri sé að fólk sjái sér hag í að vernda náttúruna til langs tíma litið og fiskveiðistjórnunarkerfið sé einmitt hannað með það fyrir augum með kvótum til langs tíma svo að sjávarútvegurinn hafi hag af sterkum fiskistofnum. Mörg umhverfisvandamál í þróunarríkjunum stafi af skorti á eignarrétti og lausn þessara vandamála geti verið að skilgreina eignarréttindi þar sem engin eru fyrir. Þannig sé hvatt til sjálfbærra nota í stað skammtíma rányrkju. Þessari hugsun megi meðal annars beita á sviðum skógarnytja, stýringu á veiðum á villtum dýrum og ferðamennsku. Sé vilji til að bjarga dýrategundum í útrýmingarhættu í þróunarríkjum hjálpi vissulega að veita fólki beinan efnahagslegan ávinning af því að tegundirnar haldi velli. Lausnir á borð við þessa séu oft ekki nýttar.

Á meðfylgjandi mynd, sem tekin var á fundinum, eru, auk Sigríðar Önnu Þórðardóttur, Lena Sommestad umhverfisráðherra Svíþjóðar og annar fundarstjóranna á fundinum í dag og Tómas Ingi Olrich sendiherra í París.

Fréttatilkynning nr. 8/2006
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum