Hoppa yfir valmynd
30. mars 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2020

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra kynnir í dag frumvarp um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda sem lagt verður fram á Alþingi á morgun. Ennfremur kynnir umhverfisráðherra útreikninga á mögulegri losun gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi fram til ársins 2020. Birtar eru 12 sviðsmyndir byggðar á líkani frá Umhverfisstofnun. Líkanið hjálpar Íslendingum við að meta losun gróðurhúsalofttegunda frá landinu og meta áhrif mögulegra stóriðjuframkvæmda á þessa losun. Þá verður líkanið notað til að reikna út útstreymi vegna 4. skýrslu Íslands til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um hugsanlega nýja stóriðjukosti. Nú er unnið að tveimur verkefnum á því sviði, byggingu álvers á Reyðarfirði á vegum Fjarðaáls og stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga upp í 260.000 tonna framleiðslu. Þá hafa verið gefin út starfsleyfi fyrir fjögur stóriðjuverkefni til viðbótar: Stækkun Norðuráls upp í 300.000 tonn, stækkun Alcan í Straumsvík úr 178.000 tonnum í 460.000 tonn, byggingu 4. ofns Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og byggingu rafskautaverksmiðju á Katanesi. Stjórnvöld hafa einnig skrifað undir samning við Alcoa um athugun á byggingu 250.000 tonna álvers á Húsavík. Þá hafa verið uppi hugmyndir um smíði 250.000 tonna álvers í Helguvík.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um framkvæmdir við sex síðasttöldu verkefnin og ljóst er að það mun hafa veruleg áhrif á losunina hvort af þeim verður og þá hvenær, þar sem einstök verkefni af þessu tagi vega þungt í losun gróðurhúsalofttegunda í litlu hagkerfi eins og hér á landi. Þetta gerir það að verkum að óvissa um losun er mjög mikil. Í líkani Umhverfisstofnunar er hægt að skoða áhrif einstakra stóriðjukosta á losun, ásamt fleiri breytum. Þar má nefna að gera má ráð fyrir að hafa með eða sleppa bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi og hægt er að taka með áhrif aukinna framkvæmda á sementsframleiðslu og eldsneytisnotkun. Byggt er á eldsneytisspá sem unnin var á vegum Orkustofnunar. Líkanið gefur kost á framsetningu á miklum fjölda mismunandi sviðsmynda. Forsendurnar sem settar eru inn í líkanið ráða alfarið útkomunni og það fer eftir forsendunum hvernig sviðsmyndirnar líta út. Þess vegna er ekki hægt að segja að einhver ein sviðsmynd sé hin eina rétta eða feli í sér spá um losun.

Umhverfisráðuneytið hefur unnið úr þessu líkani tólf sviðsmyndir.  hinni fyrstu er einungis gert ráð fyrir þeim tveimur stóriðjuverkefnum sem þegar er unnið við framkvæmdir á, þ.e. Fjarðaáli og stækkun Norðuráls í 260.000 tonna framleiðslugetu. Í sviðsmyndum 2-8 er gert ráð fyrir þessum framkvæmdum, en að auki velt upp sex möguleikum á einni eða fleiri framkvæmd í álframleiðslu, þ.e. stækkun Alcan og/eða byggingu nýs álvers á Húsavík og/eða í Helguvík. Í sviðsmynd 9 er gert ráð fyrir Fjarðaáli og stækkun Norðuráls og að auki fjórum framkvæmdum sem starfsleyfi hefur verið gefið út fyrir, en ekki er gert ráð fyrir smíði álvera á Húsavík eða í Helguvík. Í sviðsmyndum 10-12 er gert ráð fyrir öllum framkvæmdum í sviðsmynd 9, en að auki smíði álvera á Húsavík og/eða í Helguvík. Á sviðsmyndum 10-12 er ennfremur gert ráð fyrir að eldsneytisnotkun og sementsframleiðsla verði meiri en í hinum sviðsmyndunum. Í öllum sviðsmyndunum er gert ráð fyrir bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, sem mótvægi við losun gróðurhúsalofttegunda.

Sviðsmynd 1 sýnir stöðuna í dag, en að öðru leyti er enginn dómur er lagður á hver þessara sviðsmynda sé líklegust. Þó má nefna að í öllum sviðsmyndunum er gert ráð fyrir fyrsta mögulega framkvæmdatíma hvers verkefnis, þótt ljóst sé að einstök verkefni geti haft áhrif á tímasetningar annarra framkvæmda. Þannig má segja að sviðsmyndir 10-12, sérstaklega sviðsmynd 12, geri ráð fyrir meiri framkvæmdahraða en líklegt er að mögulegur sé út frá orkuöflun og efnahagslegu svigrúmi. Þrátt fyrir að þessar sviðsmyndir séu þannig ekki líklegar, er engu að síður talið gagnlegt að skoða þessa möguleika.

Á sviðsmyndunum er þróun losunar fram til 2020 sýnd í samhengi við skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni. Þær skuldbindingar eru tvíþættar. Annars vegar hefur Ísland heimild til að auka losun gróðurhúsalofttegunda um 10% frá 1990 fram til fyrsta skuldbindingartímabils bókunarinnar, árin 2008-2012. Hins vegar hefur Ísland sérstaka heimild skv. ákvæði sem stundum er kallað „íslenska ákvæðið“, til losunar 1.600 þús. tonna af CO2 á ári að meðaltali á árunum 2008-2012 frá nýjum stóriðjuverkefnum sem nýta endurnýjanlega orku. Útstreymi flúorkolefna frá álbræðslu fellur utan þessa ákvæðis og undir almennar heimildir.

Í öllum sviðsmyndunum tólf er meðaltalslosun gróðurhúsalofttegunda undir þeim mörkum sem Íslandi eru sett samkvæmt Kýótó-bókuninni. Í sviðsmynd 12 er losunin þó nærri mörkunum, en sú sviðsmynd gerir ráð fyrir meiri framkvæmdahraða en teljast má mögulegur.

Í sumum sviðsmyndanna er losun eftir árið 2012 um eða yfir heimildir Íslands á tímabilinu 2008-2012. Slíkt brýtur ekki í bága við Kýótó-bókunina, þar sem engar alþjóðlegar skuldbindingar eru í gildi um losun eftir 2012. Samningaviðræður um skuldbindingar eftir 2012 hefjast á þessu ári. Þær munu líklega taka nokkur misseri eða ár og ekki er hægt að segja fyrir um til hvaða niðurstöðu þær viðræður munu leiða.

Íslandi ber samkvæmt Kýótó-bókuninni að tryggja að losun sé innan heimilda bókunarinnar. Ef losun stefnir í að vera meiri en úthlutaðar heimildir til Íslands er hægt að afla viðbótarheimilda t.d. með aukinni bindingu kolefnis úr andrúmslofti, með þátttöku í verkefnum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda í þróunarríkjum eða t.d. ríkjum fyrrum Sovétríkjanna, eða með beinum kaupum á vannýttum heimildum annarra ríkja.

Frumvarp um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisráðherra mun á morgun leggja fram frumvarp um skráningu losunar gróðurhúsalofttegunda, sem mun styrkja það losunarbókhald sem Umhverfisstofnun hefur nú með höndum og skapa lagastoð fyrir öflun nauðsynlegra upplýsinga fyrir það. Að auki gerir frumvarpið ráð fyrir að sett verði upp skráningarkerfi fyrir losunarheimildir Íslands, í samræmi við kröfur Kýótó-bókunarinnar, sem Umhverfisstofnun mun hýsa.

Umhverfisráðherra hefur ákveðið að fela nefnd þeirri sem undirbjó frumvarpið að kanna hvernig rétt sé að standa að takmörkunum á losun gróðurhúsalofttegunda, reynist nauðsynlegt að grípa til þeirra til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókuninni. Þar sem engin fyrrgreindra sviðsmynda gefur til kynna að losun fari umfram heimildir á fyrsta skuldbindingartímabilinu er engu að síður talið ólíklegt að svo fari.

Fréttatilkynning nr. 6/2006
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum