Hoppa yfir valmynd
25. október 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Undirbúningur að stofnun þjóðgarðs á Vatnajökli

Þann 10. mars 1999 var samþykkt á Alþingi þingsályktunartillaga þar sem umhverfisráðherra var falið að kanna stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum þann 26. september 2000 að tillögu umhverfisráðherra að stefna að því að stofna Vatnajökulsþjóðgarð sem tæki til jökulhettunnar á árinu 2002, alþjóðlegu ári fjalla. Til að fylgja eftir ákvörðun ríkisstjórnar var skipuð nefnd þann 14. febrúar s.l. sem hefur nú skilað niðurstöðum sínum til ráðherra. Leggur nefndin til að stofnaður verði sem fyrst þjóðgarður sem markist af jaðri Vatnajökuls en nái að auki til núverandi Skaftafellsþjóðgarðs og hins friðlýsta náttúruvættis við Lakagíga.

Á Vatnajökli er staða eignarréttarmála sums staðar óljós. Þannig hefur óbyggðanefnd nú landssvæði í Sveitarfélaginu Hornafirði (Austur- Skaftefellssýslu) til meðferðar, en landeigendur í sveitarfélaginu hafa í nokkrum tilfellum lýst kröfum í land sem nær upp fyrir jökuljaðar. Er vonast til að úrskurður óbyggðanefndar liggi fyrir síðar í vetur. Niðurstaða óbyggðanefndar mun ráða jöðrum þjóðgarðsins í Austur-Skaftafellssýslu og verður hún höfð til hliðsjónar í viðræðum við hugsanlega landeigendur á öðrum svæðum Vatnajökuls.

Á meðan beðið er úrskurðar óbyggðanefndar hefur umhverfisráðherra ákveðið að skipa tólf manna nefnd til að vera Náttúruvernd ríkisins og ráðuneytinu til ráðgjafar við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins. Nefndin verður skipuð einum fulltrúa frá hverju hinna sjö sveitarfélaga sem liggja að Vatnajökli og einum frá hverjum eftirtalinna aðila: Ferðamálasamtökum Suðurlands, Ferðamálasamtökum Austurlands, Ferðamálasamtökum Norðurlands eystra, umhverfisverndarsamtökum og Náttúruvernd ríkisins, sem færi með formennsku í nefndinni. Verður Náttúruvernd ríkisins í samráði við ráðgjafanefndina og aðra hagsmunaaðila falið að undirbúa reglugerð um þjóðgarðinn og vinna að undirbúningi málsins í samræmi við stefnumörkun fyrri nefndar, svo sem að gera tillögur um staðsetningu þjóðgarðsmiðstöðva.



Fréttatilkynning nr. 24/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum