Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tæknin mikilvæg til að takast á við umhverfisvandamál

Sigríður Anna skoða umhverfissýningu í Mílanó
Ráðherra skoðar TAU international sýninguna í Mílanó

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra flutti ávarp við setningarathöfn alþjóðlegu umhverfissýningunnar TAU International í Mílanó á Ítalíu. Yfir eitt hundrað fyrirtæki eru þátttakendur í sýningunni sem nú fer fram í fyrsta skipti í þessari þekktu alþjóðlegu sýningaborg.

Á sýningunni er lögð áhersla á hvers kyns umhverfisvæna tækni. Þá eru á sýningunni, sem stendur yfir dagana 24. til 27. janúar, haldnar ráðstefnur tvisvar á dag um ýmislegt sem lýtur að umhverfismálum, svo sem um löggjöf, jarðveg og meðferð sorps, loftgæði, byggingatækni og óæskileg umhverfisáhrif svo nokkuð sé nefnt.

Í ávarpi sínu ræddi umhverfisráðherra stöðu umhverfisvænnar tækni á Íslandi, sérstaklega þá staðreynd að 70% af orkuþörf landsins er mætt með endurnýjanlegri orku. Þetta sé einstakt í heiminum og Íslendingar standi fremst þjóða í nýtingu jarðvarma. Þá sagði ráðherra frá tilraunaverkefnum á sviði hagnýtingar vetnis og metans, auk þess að nefna fyrirtækið Marorku, sem hefur þróað tækni til að draga úr orkuþörf skipa.

Sigríður Anna Þórðardóttir flytur ávarpa alþjóðlegri umhverfissýningu í Mílanó.Umhverfisráðherra lagði í ávarpi sínu áherslu á mikilvægi þess að nýta tækni til að takast á við umhverfismál og að þótt stjórnmálamenn gætu orðið að liði þá væru það fyrirtækin og atvinnulífið sem mundu bjóða upp á lausnirnar sem kallað væri eftir til að byggja upp hreinni framtíð. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði meðal annars:

„Margir líta á tækni sem rót margs konar umhverfisvanda sem við stöndum frammi fyrir. Vissulega hefur tæknin gert okkur kleift að nýta margar þeirra góðu gjafa sem móðir jörð hefur gefið okkur til að bæta hag okkar á ýmsa lund.  En hún hefur líka stundum leitt til ofnýtingar og mengunar sem erfitt er að snúa við. Þetta er þó ekki tækninni að kenna, því að við ættum að geta stýrt tækninni eins og við getum búið hana til.  Kenna má efnum sem menn bjuggu til um þynningu ósonlagsins, en tækniframfarir hafa líka fært okkur óson-væna tækni sem gerir sama gagn án neikvæðu afleiðinganna.  Ég tel að tæknin sé eitt mikilvægasta tækið sem við búum yfir til að til að takast á við umhverfisvandamál og sýning af þessu tagi getur gegnt mikilvægu hlutverki við að miðla umhverfisvænni tækni.

Við sem störfum fyrir hið opinbera berum ábyrgð á því að setja reglur fyrir einstök lönd og fyrir heiminn í heild. En betra umhverfi verður ekki tryggt með því einu að halda alþjóðlegar ráðstefnur og setja reglur á sviði umhverfismála. Stjórnmálamenn geta hjálpað, en það eru fyrirtækin og atvinnulífið sem munu bjóða upp á lausnirnar sem kallað er eftir til að byggja upp hreinni framtíð."

Fréttatilkynning nr. 1/2006
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum