Hoppa yfir valmynd
8. desember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ísland fær viðurkenningu fyrir leiðsögn í loftslagsmálum

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tók í gær við viðurkenningu fyrir Íslands hönd, sem veitt var fyrir árangur við að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og leiðsögn í loftslagsmálum. Ísland var eitt af þremur ríkjum sem hlaut slíka viðurkenningu, Low Carbon Leader Award, sem gefin eru af samtökunum The Climate Group í samvinnu við tímaritið Business Week.

Viðurkenningar The Climate Group voru veittar á hátíðarsamkomu í Montreal í Kanada í gær, 7. desember, í tengslum við Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem þar stendur nú yfir. Pierre Pettigrew, utanríkisráðherra Kanada, opnaði samkomuna og sagði m.a. að þörf væri á forystu á öllum sviðum þjóðlífsins til þess að takast á við loftslagsbreytingar. David Suzuki, einn þekktasti sjónvarpsmaður Kanada og baráttumaður fyrir umhverfisvernd, líkti baráttunni gegn loftslagsbreytingum við kapphlaupið í geimferðum og sagði að með vilja og forystu væri hægt að virkja tækniþróun og ímyndunarafl til að leysa stór verkefni; margir óttuðust að aðgerðir gegn loftslagsbreytingum sköðuðu efnahagslífið en þeir sem fengju viðurkenningarnar hefðu sýnt að svo þyrfti ekki að vera.

Ísland fékk viðurkenninguna fyrir þrjú atriði, sem tiltekin voru í rökstuðningi sérfræðinganefndar samtakanna: 1) Vegna verkefna á sviði vetnis og yfirlýstrar stefnu um að notkun jarðefnaeldsneytis verði óveruleg árið 2030, 2) vegna sérstaks fjögurra ára átaks til að binda kolefni úr andrúmsloftinu með landgræðslu og skógrækt og 3) vegna þess að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap þjóðarinnar er mjög hátt, eða um 70%.

Önnur ríki sem fengu viðurkenningu fyrir leiðsögn á sviði loftslagsmála voru Þýskaland og Bretland. Þessi tvö ríki hafa náð að draga verulega úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og hafa gripið til ýmissa aðgerða til að efla endurnýjanlega orku og loftslagsvæna tækni. Auk ríkjanna þriggja fengu samtök 43 smáeyjaríkja, AOSIS, viðurkenningu fyrir baráttu sína á alþjóðlegum vettvangi gegn loftslagsbreytingum, en smáeyjaríkjum stendur meiri ógn af hlýnun loftslags og hækkun sjávarborðs en flestum öðrum.

Viðurkenningar voru einnig veittar fyrirtækjum, fylkjum, borgum og einstaklingum sem þykja hafa skarað fram úr í viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og styrk koltvíoxíðs í andrúmsloftinu. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, fékk viðurkenningu sem einstaklingur fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum og veitti Margaret Beckett, umhverfisráðherra Bretlands, þeim viðtöku. Meðal annarra sem fengu viðurkenningu má nefna Manitoba-ríki í Kanada, en Ísland og Manitoba hafa með sér samstarf á sviði loftslagsvænnrar tækni.

The Climate Group byggir viðurkenningar sínar á upplýsingum um árangur ríkja, borga, fyrirtækja o.s.frv., en þær voru síðan yfirfarnar af níu manna nefnd sérfræðinga. Settar voru upp níu forsendur til að dæma aðgerðir sem leiða til lágmörkunar koltvíoxíðsútstreymis. Nánari upplýsingar um aðferðarfræðina og lista yfir þá sem fengu viðurkenningu The Climate Group er að finna á:

http://www.businessweek.com/magazine/content/05_50/b3963420.htm

http://www.theclimategroup.org/index.php?pid=750

Myndir af afhendingu viðurkenninganna eru fáanlegar hjá Nicol Forster hjá The Climate Group:

s. +44 (0) 1932 268 309, t-póstur: [email protected]

 

Nánari upplýsingar veitir Hugi Ólafsson skrifstofustjóri í síma 896 2130.

Fréttatilkynning nr. 33/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum