Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Velferð til framtíðar

Ríkisstjórnin hefur samþykkt nýja stefnumörkun Íslands um sjálfbæra þróun til 2020. Stefnumörkunin ber heitið "Velferð til framtíðar" og hefur að geyma markmið stjórnvalda á sviði sjálfbærrar þróunar. Stefnumörkunin verður kynnt á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg í Suður-Afríku, sem hefst 26. ágúst.

Stefnumörkuninni er ætlað að mynda ramma um opinbera markmiðssetningu og umræðu um sjálfbæra þróun á Íslandi á komandi árum. Hún verður endurskoðuð reglulega og markmið og árangur rædd á Umhverfisþingum, sem reglulega verður boðað til.

Kjarni stefnumörkunarinnar eru sautján markmið, sem eru sett fram undir fjórum yfirskriftum: 1) Heilnæmt og öruggt umhverfi, 2) Verndun náttúru Íslands, 3) Sjálfbær nýting auðlinda og 4) Hnattræn viðfangsefni. Sett eru fram undirmarkmið og bent á helstu leiðir til að ná þeim á næstu árum. Einnig eru settar fram tölulegar vísbendingar, sem eiga að auðvelda við mat á árangri við að ná viðkomandi markmiði.

Stefnumörkunin byggir á víðtæku samráði milli sjö ráðuneyta, enda nær sjálfbær þróun yfir mun víðtækara svið en verksvið umhverfisráðuneytisins og varðar í raun alla samfélagsþróun. Óskað var eftir athugasemdum frá almenningi, félagasamtökum, atvinnulífinu og sveitarfélögum við fyrstu drög að stefnumörkuninni og bárust allmargar slíkar. Samráðsfundir voru einnig haldnir með fulltrúum sveitarstjórna og félagasamtaka.

Á heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, sem haldin var í Ríó de Janeiro árið 1992, var samþykkt viðamikil framkvæmdaáætlun um hvernig skuli stuðlað að sjálfbærri þróun á heimsvísu, sem þekkt er undir heitinu Dagskrá 21 (Agenda 21). Íslensk stjórnvöld unnu í kjölfar Ríó-ráðstefnunar stefnumótun um sjálfbæra þróun á landsvísu og á síðustu árum hafa fjölmörg íslensk sveitarfélög mótað eigin stefnu á þessu sviði undir heitinu Staðardagskrá 21. Á leiðtogafundinum í Jóhannesarborg verður árangur síðustu 10 ára metinn og áherslur til framtíðar ræddar. Ný stefnumörkun íslenskra stjórnvalda er þáttur í þeirri umræðu á heimsvísu. Það er von íslenskra stjórnvalda að ný stefnumörkun Íslands verði til þess að efla umræðu og skilning á sjálfbærri þróun á Íslandi.

Hægt er að nálgast PDF útgáfu af skýrslunni hér..

Fréttatilkynning nr. 18/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum