Hoppa yfir valmynd
2. júní 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra heimsækir Kárahnjúka og Fjarðabyggð

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra skoðar athafnasvæði Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Ráðherra heimsækir Kárahjúka og Fjarðarbyggð

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra heimsótti í gær og fyrradag, 31. maí og 1. júní 2005, framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðabyggð. Í fyrradag skoðaði umhverfisráðherra stöðvarhús Kárahnjúkavirkjunar, stíflugerð vegna Hálslóns og fleiri mannvirki á framkvæmdasvæðinu, meðal annars með tilliti til umhverfisþátta og aðgerða í umhverfismálum.

Í gær fór umhverfisráðherra um Fjarðabyggð í boði sveitarfélagsins. Ráðherranum var kynnt sú uppbygging sem á sér stað í sveitarfélaginu, meðal annars ný byggingarsvæði á Reyðarfirði, hitaveita og framkvæmdir við sundlaug og grunnskóla á Eskifirði og ný byggingarsvæði, snjóflóðavarnargarðar, viðbygging við grunnskólann og framkvæmdir sundlaugina á Norðfirði svo nokkuð sé nefnt. Auk þessa var framkvæmdasvæði Fjarðaáls í Reyðarfirði skoðað.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra kynnir sér nýlegar framkvæmdir við hitaveitu á Eskifirði.Að skoðunarferðinni lokinni sagði Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra: „Það var afar lærdómsríkt að fara um þetta svæði, allt frá Kárahnjúkum, um Hérað og niður í Fjarðabyggð, og sjá þá miklu uppbyggingu sem þarna á sér stað og þá áherslu sem lögð er á umhverfismál. Íbúar svæðisins eru greinilega fullir bjartsýni og það var ánægjulegt að sjá þann kraft sem henni fylgir. Alls staðar sem ég fór um fann ég fyrir þeirri miklu og jákvæðu viðhorfsbreytingu sem orðið hefur.

En það er ekki aðeins að framkvæmdagleði ráði ríkjum á svæðinu. Það er ekki síður ánægjulegt að sjá hvarvetna áhuga fólks á að standa vel að öryggis- og umhverfismálum. Fjarðabyggð hefur til að mynda lagt sig fram um að nýta kraftinn og framkvæmdagleðina til að fegra og snyrta umhverfið, til dæmis með því að græða víða gömul sár. Þarna virðist mér því reynt að byggja upp í góðri sátt við umhverfið."

Í lok ferðarinnar átti Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra gagnlega fundi með bæjarráði Fjarðabyggðar og Náttúrustofu Austurlands.

Fréttatilkynning nr. 18/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum