Hoppa yfir valmynd
5. maí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um losun gróðurhúsalofttegunda

Umhverfisráðuneytið hefur sett reglugerð um tiltekin efni sem stuðla að auknum gróðurhúsaáhrifum, með það að markmiði að takmarka notkun þeirra og losun. Um er að ræða vetnisflúorkolefni (HFC), flúorkolefni (FC) og hexaflúorbrennistein (SF6).

Samkvæmt reglugerðinni er óheimilt að framleiða, flytja inn og selja þessi efni eða vörur sem innihalda þau, með nokkrum undantekningum þó, þ.e. HFC til notkunar í kæli- og varmadælukerfum og í lyfjum sem drifefni og SF6 í rofum og rafbúnaði þar sem aðrar lofttegundir eru ónothæfar. Einnig getur umhverfisráðherra veitt tímabundnar undanþágur frá banni á þessum efnum. Óheimilt er að losa efnin út í umhverfið.

Losun þessarra efna hér á landi er lítil, en á móti kemur að þau gleypa í sig mun meira af geislun en koltvíoxíð (CO2) og flest önnur efni sem valda gróðurhúsaáhrifum; þannig telst SF6 hafa rúmlega 20.000-falda virkni á við CO2. Samtals er losun efnanna um 3% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, mælt í CO2-ígildum.

• Útstreymi FC var um 8 tonn árið 1995, eða sem svarar um 55.500 tonnum af CO2. Losun flúorkolefna er einkum frá álbræðslu og hefur farið mjög minnkandi á síðustu árum vegna bættra mengunarvarna.

• Áætlað útstreymi HFC á Íslandi árið 1995 var um 10 tonn, eða sem svarar um 25.000 tonum af CO2.

• Talið er að heildarmagn SF6 á Íslandi sé um 11 tonn og að 200-250 kg leki út á hverju ári, sem veldur jafn miklum gróðurhúsaáhrifum og 5.400 tonn af CO2.

Fréttatilkynning nr. 17/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum