Hoppa yfir valmynd
6. maí 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Bætir náttúruupplifun heilsuna?

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti og ráðstefnugestir í Freysnesi 5 - 7 maí
Á ráðstefnu í Freysnesi 5. - 7. maí.

Er hugsanlegt að nálægð við græn svæði og fallega náttúru auki líkurnar á því að fólk stundi hreyfingu? Getur nálægð við náttúruna stuðlað að bættri heilsu? Þetta er meðal þess sem rætt er um á ráðstefnu á vegum umhverfisráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar sem nú fer fram í Skaftafelli. Á ráðstefununni er fjallað um þjóðgarða, útivist og heilsu frá ýmsum sjónarhornum, meðal annars um efnahagslegt gildi náttúrunnar.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra flutti opnunarávarp á ráðstefnunni. Í ávarpi sínu fjallið umhverfisráðherra um þá áherslu sem lögð hefur verið á náttúrvernd og þjóðgarða og fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um enn frekari stækkun Skaftafellsþjóðgarðs og um þjóðgarð norðan Vatnajökuls.

Í ávarpi sínu sagði umhverfisráðherra meðal annars: „Það er enginn efi í mínum huga að náttúruverndarsvæði þar sem fólk getur notið útivistar í náttúrulegu umhverfi, þar með taldir þjóðgarðar, hafa umtalsverð áhrif á heilsu og vellíðan fólks. Náttúruverndarsvæði þjóna margvíslegum tilgangi, en fyrst er að nefna að þau eru ætluð til að vernda líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi, auk einstæðra jarðmyndana og landslags. Annað og ekki síður mikilvægt markmið með náttúruverndarsvæðunum felst í því gildi sem óspillt náttúra hefur vegna útivistar og fegurðar landslagsins, og til andlegrar endurnæringar."

Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að skapa umræðuvettvang fyrir fólk sem starfar að náttúruvernd, útivist og heilsu í opinbera geiranum og fyrir þá sem starfa fyrir frjáls félagasamtök. Þátttakendur eru liðlega eitt hundrað talsins og koma frá öllum Norðurlöndum, Lettlandi og Litháen. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands er meðal þátttakenda.

Sem dæmi um erindi á ráðstefnunni má nefna ræðu Svíans Peters Schantz sem hann flutti í morgun um náttúru, útivist og heilsu. Þar greindi hann frá niðurstöðum rannsókna þar sem reynt var að skoða áhrif náttúrunnar á streitu og hvort nálægð við náttúruna gæti haft þau áhrif að auka áhuga fólks á að hreyfa sig. Peter Schantz segir að norrænu ríkin horfist í augu við aukin vandamál vegna offitu og nútíma lífsstíll einkennist af hreyfingarleysi. Síðustu árin hafi sum Norðurlandanna lagt áherslu á útivist sem hluta af nátúrurverndarstefnu sinni og þau hafi einnig lagt áherslu á tengslin á milli útivistar og heilsufars.

Skotinn Roger Croft fjallaði um hvort náttúruvernd ætti að hafa að aðalmarkmiði að vernda sérstæð náttúrufyrirbæri, hvort mestu skipti að vernda náttúruna svo hún væri aðgengileg fyrir fólk til að njóta og upplifa, eða hvort bæði þessi markmið væru jafngild. Í erindi hans kom meðal annars fram að til þess að þjóðfélagið gæti nýtt sér gæði og kosti verndaðra svæða verði að stjórna þeim með náttúruverndarsjónarmið að leiðarljósi í stað þess að láta skammtímaávinning ráða ferðinni.

Ráðstefnan stendur yfir dagana 5.-7. maí og fer fram í Freysnesi í Skaftafelli. Dagskrá og frekari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á vef ráðstefnunnar.

Fréttatilkynning nr. 13/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum