Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2001 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Yfirstandandi samningafundur í Bonn um loftslagsmál

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra er nú stödd í Bonn í Þýskalandi, þar sem stendur yfir ráðherrafundur aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Eins og kunnugt er af fréttum, er á fundinum einkum rætt um stöðuna í samningaferlinu varðandi Kýótó-bókunina, en hún er óljós vegna yfirlýsinga George W. Bush Bandaríkjaforseta í mars 2001 um að Bandaríkin styðji ekki lengur samningsferlið. Síðan þá hafa staðið yfir óformlegar þreifingar milli samningsaðila, en Bandaríkjamenn hafa ekki dregið fyrri afstöðu sína til baka. Tæknilega séð getur Kýótó-bókunin gengið í gildi án þátttöku Bandaríkjanna, en ljóst er að fjarvera þeirra setur stórt strik í reikninginn, enda losar ekkert ríki meira magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið og Bandaríkin.

Hægt er að ná í umhverfisráðherra eða aðra fulltrúa í íslensku samninganefndinni í síma 896-2130.

Í tilefni fundarins vill umhverfisráðuneytið koma á framfæri eftirfarandi yfirliti yfir sögu samningaviðræðnanna og stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum.

1. Gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingar

Koltvíoxíð (CO2) og ýmsar aðrar lofttegundir hafa þann eiginleika að þær drekka í sig geislun frá jörðinni sem færi annars út í geiminn og valda því að andrúmsloftið er hlýrra en ella, ekki ósvipað og gler í gróðurhúsi. Náttúruleg gróðurhúsaáhrif gera jörðina lífvænlega, því án þeirra væri hitastigið um 30 °C lægra en það er. Aukið útstreymi koltvíoxíðs og annara gróðurhúsalofttegunda (GHL) af mannavöldum hefur nú þegar valdið hlýnun andrúmsloftsins (um 0,4-0,8°C á 20. öldinni), að því að vísindamenn telja og hlýnunin gæti aukist verulega á 21. öldinni og valdið mikilli röskun á veðurfari, vistkerfum og ræktunarskilyrðum, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sérstök vísindanefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna (IPCC) sendi á þessu ári frá sér skýrslu þar sem spáð er að hlýnun andrúmsloftsins geti numið 1,4-5,8°C til ársins 2100 miðað við árið 1990.

2. Loftslagssamningur S.þ. og Kýótó-bókunin

Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var undirritaður í Ríó de Janeiro árið 1992 og gekk í gildi árið 1994. Samningurinn felur ekki í sér ákveðin losunarmörk á GHL fyrir einstök ríki, en í desember 1997 náðu aðildarríki samningsins samkomulagi í Kýótó í Japan um slík losunarmörk fyrir iðnríkin (flest ríki OECD ásamt ríkjum Austur-Evrópu og mörgum fyrrum Sovétlýðveldum, sem sérstaklega eru tilgreind í sk. Viðauka I við loftslagssamninginn). Í Kýótó-bókuninni við loftslagssamninginn er gert ráð fyrir að ríki í Viðauka I minnki losun koltvíoxíðs og fimm annarra gróðurhúsalofttegunda, samanlagt um rúmlega 5% frá árinu 1990 til fyrsta skuldbindingartímabilsins, sem er á tímabilinu 2008-2012. Losunarmörk fyrir einstök ríki og Evrópusambandið eru á bilinu -8% (ESB-ríkin) til +10%, en Ísland er það ríki sem fær mestan losunarkvóta, þ.e. 10% aukningu frá 1990 og má segja að í því felist nokkur skilningur á sérstöðu landsins með tilliti til mikillar notkunar endurnýjanlegra orkugjafa. Ísland er þrátt fyrir þetta ekki það ríki sem hefur í raun hæstan losunarkvóta, því Evrópusambandið hefur á grundvelli sameiginlegs kvóta útdeilt kvótum til einstakra aðildarríkja, sem eru á bilinu -28% (Lúxemborg) til +27% (Portúgal). Fjögur ríki ESB hafa skv. þessu innra samkomulagi stærri kvóta en Ísland, en þau eru, auk Portúgals: Írland (+13%), Spánn (+15%) og Grikkland (+25%). Kýótó-bókunin gengur í gildi þegar a.m.k. 55 ríki hafa staðfest hana, en þar á meðal þurfa þó að vera iðnríki í Viðauka I, sem losa samanlagt 55% eða meira af heildarlosun GHL. Nú hafa 34 ríki staðfest bókunina, allt þróunarríki, nema eitt ríki sem skilgreint er sem iðnríki í Viðauka I, Rúmenía.

3. Samningafundurinn í Bonn

Í framhaldi af Kýótó-bókuninni hafa farið fram samningaviðræður um útfærslu hennar, þar sem m.a. hefur verið rætt um verslun með losunarheimildir, reglur um bindingu kolefnis úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu, refsingar við brotum, aðstoð við þróunarríki o.fl. Ekki hefur tekist að ná samkomulagi um mörg helstu ágreiningsmálin, enda eru þau afar flókin, Kýótó-bókunin er almennt talinn einn flóknasti alþjóðasamningur sem um getur. Reynt var til þrautar að ná samkomulagi á 6. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins, sem haldinn var í Haag í Hollandi í nóvember, en því miður náðist það ekki og fundinum var frestað. Fundurinn í Bonn er framhald 6. aðildarríkjaþingsins.

4. Stefna íslenskra stjórnvalda

Ísland er aðili að Loftslagssamningi S.þ., en ekki Kýótó-bókuninni. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að stefnt sé að því að Ísland gerist aðili að Kýótó-bókuninni þegar fyrir liggur ásættanleg niðurstaða í sérmálum þess.

Á fundinum í Kýótó 1997 benti íslenska sendinefndin á að fámenn ríki með litla losun ættu við sérstaka erfiðleika að glíma við framkvæmd Kýótó-bókunarinnar, þar sem einstök framkvæmd, s.s. bygging álvers, gæti leitt til mikillar hlutfallslegrar aukningar á losun. Ríki á borð við Ísland byggju því við miklu minna svigrúm en stærri hagkerfi. Því var samþykkt í Kýótó að skoða sérstaklega stöðu lítilla ríkja þar sem einstakar framkvæmdir geta haft mjög afgerandi áhrif á heildarlosun. Þessi ákvörðun Kýótó fundarins hefur gengið undir heitinu "íslenska ákvæðið".

Staðan er þannig nú að undirnefnd Loftslagssamningsins um vísindalega og tæknilega ráðgjöf hefur lagt fyrir 6. aðildarríkjaþingið til samþykktar drög að ákvörðun. Það er hins vegar ljóst að þessi ákvörðun verður ekki afgreidd á undan öðrum málum. Ef ekki tekst að ná samstöðu um aðrar ákvarðanir um útfærslu Kýótó-bókunarinnar á fundinum í Bonn nú mun þessi ákvörðun bíða 7. aðildarríkjaþingsins sem verður haldið í Marrakech í Marokkó í nóvember. Þau drög sem liggja fyrir aðildarríkjaþinginu gera ráð fyrir því að koltvíoxíðlosun frá nýrri stóriðju, sem hefur starfsemi eftir 1990, og leiðir til meira en 5% aukningar í losun á fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar 2008-2012, verði undanþegin losunarskuldbindingum bókunarinnar. Drögin að ályktun ná aðeins til smáríkja þ.e. ríkja sem losuðu minna en 0,05 % af heildarlosun iðnríkjanna 1990. Sett eru viðbótarskilyrði, m.a. er gerð krafa um notkun endurnýjanlegrar orku, að notkun hennar leiði til samdráttar í losun, besta fáanlega tækni sé notuð og að bestu umhverfisvenjur séu viðhafðar í framleiðslunni.

Íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir ákvæðum Loftslagssamningsins á ýmsan hátt, þ.á m. með reglulegu losunarbókhaldi, vinnslu metans í urðunarstaðnum á Álfsnesi, aðgerðum til að minnka olíubrennslu í fiskimjölsverksmiðjum og aukinni bindingu CO2 úr andrúmslofti með skógrækt og landgræðslu. Sérstakur stýrihópur ráðuneytisstjóra um aðgerðir í loftslagsmálum hefur verið starfandi síðan árið 1998 og vinnur hann að tillögum um aðgerðir til þess að ná losunarmarkmiðum Kýótó-bókunarinnar á fyrsta skuldbindingartímabili hennar.

5. Endurnýjanlegir orkugjafar

Íslensk stjórnvöld hafa í samningaviðræðum bent á sérstöðu landsins hvað nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa varðar. Yfir 66% allrar orkuframleiðslu Íslendinga kemur frá endurnýjanlegum orkulindum (vatnsafli og jarðvarma), á meðan samsvarandi hlutfall er innan við 3% að meðaltali hjá ríkjum OECD og innan við 6% hjá Evrópusambandnu, en ESB stefnir að því að ná hlutfallinu upp í 12% árið 2010. Ekkert ríki nýtir endurnýjanlega orkugjafa eins mikið og Íslendingar. Þetta þýðir að nær engin losun gróðurhúsalofttegunda er vegna staðbundinnar orkuframleiðslu hér á landi, sem víðast er stór þáttur í heildarlosun og sá sem menn líta einna helst til varðandi aðgerðir til að draga úr losun. Losun Íslendinga á gróðurhúsalofttegundum kemur hins vegar nær eingöngu frá samgöngum, fiskiskipaflotanum og iðnferlum í stóriðju (skiptingin er nokkurn veginn jöfn milli þessarra þriggja þátta). Sérstaða Íslands varðandi endurnýjanlega orkulindir gerir það ekki einungis að verkum að Íslendingar hafa minna svigrúm til minnkunar losunar en flest önnur ríki, heldur er það einnig ljóst að stóriðja sem er staðsett á Íslandi og nýtir endurnýjanlega orku og bestu fáanlega tækni tryggir lágmarkslosun GHL á heimsvísu. Álver sem knúið er með kolum eða olíu, eins og algengt er víða, veldur um áttföldu útstreymi GHL en þegar notaðar eru endurnýjanlegar orkulindir. Því væri þversögn fólgin í því að samningur sem hefur það að markmiði að lágmarka losun GHL á heimsvísu kæmi raun í veg fyrir að hægt sé að reisa stóriðjuver hér á Íslandi, þar sem vistvæn orka er notuð. Í viðræðum sínum hafa fulltrúar stjórnvalda fundið fyrir vaxandi skilningi alþjóðasamfélagsins og vona að samkomulag náist um sérmál Íslands innan ramma Kýótó-bókunarinnar.

Sérstaða Íslendinga í orkumálum sést vel ef skoðuð er orkunotkun heimsbyggðarinnar í heild. Skv. tölum Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA) kemur 79,3% þeirrar orku sem jarðarbúar nýta frá bruna jarðefnaeldsneytis (35,7% frá olíu, 23,3% frá kolum og 20,3% frá jarðgasi). Um 11,2% kemur síðan frá bruna lífmassa og úrgangs, en þar er einkum um að ræða hálm, tað og eldivið, sem notaður er í þróunarríkjunum. 6,7% má rekja til kjarnorku, en aðeins 2,7% til vatnsorku og annarra endurnýjanlegra orkulinda, s.s. jarðhita, vind- og sólarorku.

Fréttatilkynning nr. 10/2001
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum