Hoppa yfir valmynd
22. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra ræðir sjálfbæra þróun á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna

Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, ávarpaði þann 20. apríl, sl. 13. fund nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem nú er haldinn í New York. Fundurinn er tileinkaður sjálfbærri nýtingu vatns, bættu hreinlæti og framkvæmd markmiða á þessum sviðum sem Sameinuðu þjóðirnar settu sér árið 2000, þúsaldarmarkmiðanna, og áréttuðu síðar á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Jóhannesarborg árið 2002.

Í ávarpi sínu sagði umhverfisráðherra m.a. að skortur á vatni og hreinlæti væri eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins og að rannsóknir hafi sýnt að fjárfesting í bættu aðgengi að vatni og hreinlæti skili meiri árangri en nokkrar aðrar aðgerðir í þróunarmálum. Ráðherra vísaði m.a. í nýja skýrslu Sameinuðu þjóðanna um mat á vistkerfum þar sem lögð er áhersla á góða umhverfisstjórnun sem lykil að því að þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna í þróunarmálum náist. Markmiðin fela m.a. í sér að allir íbúar jarðarinnar hafi árið 2015 viðunandi aðgang að drykkjarvatni og fullnægjandi hreinlætisaðstöðu. Til að ná þessum markmiðum þarf á næstu 10 árum að sjá 1,9 milljörðum manna fyrir aðgengi að vatni og 2,4 milljörðum fyrir ásættanlegu hreinlæti. Ráðherra ítrekaði mikilvægt hlutverk kvenna og nauðsyn þess að auka þátt þeirra í stefnumótun og framkvæmd þessara mála.

Ráðherra vakti sérstaka athygli á alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun frá landi og samspil umhverfismála hafsins og fersks vatns sem styður vatnsvernd og bætt hreinlæti. Ráðherra hvatti ríki heims til að framkvæma áætlunina. Í drögum að yfirlýsingu ráðherranna er sérstaklega vísað í áætlunina.

Þess má geta að Ísland studdi fjárhagslega þátttöku þeirra ríkja á smáum eyjum þar sem þróun er skemmst á veg komin.

Fréttatilkynning nr.10/2005
Umhverfisráðuneytið

 

 



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum