Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sigríður Anna Þórðardóttir á fundi umhverfisráðherra Norðurlandanna

Norðurlöndin leiðandi á sviði umhverfisvænnar orkutækni

Norðurlöndin eru leiðandi á heimsvísu á ýmsum sviðum umhverfisvænnar tækni, ekki síst á sviði endurnýjanlegrar orku. Ríkin ætla að leggja áherslu á eflingu slíkrar tækni m.a. innan Lissabon-áætlunar Evrópusambandsins um eflingu efnahags og atvinnu. Umhverfisráðherrar Norðurlanda ákváðu þetta á fundi sínum í Kaupmannahöfn 7. apríl 2005. Á fundinum benti Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra á að Íslendingar leggi mikla áherslu á endurnýjanlega orku og séu meðal annars í fremstu röð í notkun jarðvarma sem orkugjafa. Þá sé á Íslandi unnið að því að þróa tækni sem draga muni úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá skipum auk þess sem verið sé að þróa notkun vetnis sem orkugjafa fyrir skip og bíla. Ákveðið var á fundinum að halda ráðstefnu síðar á árinu, þar sem ríkin munu ræða hvernig efla megi norræna samvinnu á sviði umhverfisvænnar tækni og taka virkan þátt í evrópskri áætlun um umhverfistækni.

Umhverfisráðherrarnir vilja efla Stokkólms-samningsins um þrávirk lífræn efni, en fyrsta ráðstefna aðildarríkja hans verður haldin í næsta mánuði. Ráðherrarnir voru sammála um að samningurinn ætti að taka til fleiri efna en þeirra tólf sem nú eru tiltekin í honum.

Ráðherrarnir fögnuðu útkomu þúsaldarúttektar Sameinuðu þjóðanna á vistkerfi jarðar (Millenium Ecosystem Assessment), sem veigamiklum vísindalegum grunni fyrir ákvarðanatöku á alþjóðavettvangi um vernd og sjálfbæra nýtingu lífríkisins og vistkerfisins. Bent er á að skýrslan sýni að nauðsynlegt sé að vernda vistkerfið til að tryggja heilbrigði og lífsviðurværi fólks og draga úr fátækt í heiminum.

Ráðherrarnir ræddu um stefnumörkun Evrópusambandsins um málefni hafsins, sem framkvæmdastjórn ESB mun væntanlega kynna í júlí nk. Stefnumörkunin mun hafa áhrif í fjölþjóðlegum samningum um vernd hafsins, þ.á m. á OSPAR, Samningi um vernd Norðaustur-Atlantshafsins, sem Ísland er aðili að. Ákveðið var að leita leiða til að samræma vinnu um málefni hafsins, sem fram fer innan norrænu ráðherranefndarinnar.

Fréttatilkynning nr. 8/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum