Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður Skipulagsstofnunar staðfestur um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar


Í dag hefur umhverfisráðherra kveðið upp úrskurð vegna kæru á úrskurði Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Villinganesvirkjunar í Skagafirði. Í úrskurði Skipulagsstofnunar frá 24. október 2001 var fallist á allt að 33 MW Villinganesvirkjun í Skagafirði ásamt 132 kV háspennulínu frá virkjun að byggðalínu með þremur skilyrðum:

1. Lagður verði hliðarlækur sem geri virkjunina fiskgenga í samráði við veiðimálastjóra.
2. Tryggt verði lágmarksrennsli um virkjunina í samráði við veiðimálastjóra.
3. Menningarminjar sem fara undir lón verði rannsakaðar og vegtenging og vinnubúðir í landi Tyrfingsstaða verði staðsettar í samráði við Fornleifavernd ríkisins.

    Ráðuneytinu bárust tíu kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar. Framkvæmdaraðili, Héraðsvötn ehf. krafðist þess að skilyrði 1 yrði fellt niður, en í hinum níu kærunum var gerð krafa um að úrskurður Skipulagsstofnunar yrði felldur úr gildi.
    Það er niðurstaða umhverfisráðuneytisins að fyrirhuguð framkvæmd, að teknu tilliti til þeirra skilyrða sem Skipulagsstofnun setti, muni ekki hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hinn kærða úrskurð með þeim breytingum að skilyrði 1 í úrskurði Skipulagsstofnunar orðist svo: Virkjunin verði gerð fiskgeng með lagningu hliðarlækjar eða á annan fullnægjandi hátt í samráði við Veiðimálastjóra. Einnig bætist við nýtt svohljóðandi skilyrði 4: Framkvæmdaraðili skal vakta og fylgjast með breytingum á strandlínunni í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands eftir að virkjunarframkvæmdir eru hafnar.

    Úrskurðinn í heild sinni má finna á http://www.réttarheimild.is undir stjórnvaldsúrskurðir/umhverfisráðuneyti.

    Fréttatilkynning nr. 14/2002
    Umhverfisráðuneytið

    Hafa samband

    Ábending / fyrirspurn
    Ruslvörn
    Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum