Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra á fundi Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna

Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, situr fund í stjórnarnefnd Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem haldinn er í Nairobi í Kenýa dagana 21.-23. febrúar. Fundinn sækja um það bil 100 ráðherrar frá 6 heimsálfum.

Auk hefðbundinna starfa varðandi starfsáætlun og fjárlög stofnunarinnar næstu tvö árin er á fundinum sérstaklega rætt um framkvæmd hinna svokölluðu þúsaldarmarkmiða, sem leiðtogar heims samþykktu á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í september árið 2000, og fylgt var eftir á Heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun í ágúst 2002.

Á fundinum er einkum fjallað um þau markmið er lúta að sjálfbærri nýtingu vatns, hreinlæti og búsetu og hvernig styrkja má stöðu kvenna í þróunarlöndunum í framkvæmd umhverfismála og að útrýma fátækt.

Umhverfisráðherra tók á fundinum þátt í hringborðsumræðum ráðherra um þúsaldarmarkmiðin. Í máli sínu lagði ráðherra áherslu á að aðgangur að hreinu og heilnæmu vatni sé forsenda þess að ná markmiðunum frá Jóhannesarborg. Áætlanir um nýtingu vatns verði að líta til fjölmargra þátta, þar á meðal áhrifa notkunar og mengunar ferskvatns á hafið. Í því sambandi vakti ráðherra athygli á alþjóðlegri áætlun um varnir gegn mengun hafsins frá landsstöðvum sem hefði ennfremur mikið gildi fyrir vernd ferskvatns og bætt hreinlæti.

Varðandi stöðu kvenna í þróunarlöndunum undirstrikaði ráðherra sérstaklega nauðsyn þess að tryggja rétt kvenna til menntunar og styrkja réttindi þeirra til að taka þátt í ákvörðunum á öllum stigum samfélagsins.

Umhverfisráðherra hélt ræðu á fundinum um megináherslur Íslands varðandi sjálfbæra þróun og aðstoð Íslands við þróunarlöndin í því sambandi.

Ræðunni er varpað út á veraldarvefnum á eftirfarandi slóð: http://www.unep.org/gc/gc23/officialStatements.asp

Fréttatilkynning nr. 6/2005
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum