Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úttekt vegna brunans á athafnasvæði Hringrásar

Í nóvember sl. óskaði Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra eftir því við Brunamálastofnun að stofnunin gerði sérstaka úttekt vegna brunans á athafnasvæði Hringrásar við Klettagarða. Brunamálastofnun hefur nú skilað skýrslu sinni til ráðherra og gerir ýmsar tillögur til úrbóta til þess að draga úr líkum á því að atvik sem þetta endurtaki sig.

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að Brunamálastofnun telur litlar líkur á því að svipaðir atburðir gerist aftur þar sem hvergi er jafn miklu af hjólbörðum safnað saman nálægt íbúðarbyggð og var á athafnasvæði Hringrásar. Stofnunin bendir hins vegar á nokkur atriði sem betur mega fara.

Brunamálstofnun telur mikilvægt að upplýsa eldvarnaeftirlit sveitarfélaganna um ótvíræða skyldu þeirra til að bregðast við ef slökkviliðsstjóri telur að um almannahættu sé að ræða. Einnig sé mikilvægt að fræða eigendur atvinnufyrirtækja um eigin ábyrgð og auðvelda þeim að koma á innra eftirliti með brunavörnum. Brunamálastofnun stefnir að því að endurskoða reglugerðir um eldvarnaeftirlit með þetta að leiðarljósi. Auk þess telur Brunamálastofnun að skýra þurfi betur þvingunarúrræði sem slökkviliðsstjórar geta gripið til í lögum um brunavarnir nr. 75/2000 þegar ekki er hægt að tengja brunahættu ákveðnu mannvirki.

Ráðuneytið mun í framhaldi af skýrslunni hlutast til um að lög um brunavarnir og reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt þeim verði endurskoðaðar með tilliti til ábendinga í skýrslunni. Einkum þarf að fara yfir þau ákvæði laga sem snerta þvingunarúrræði við þær kringumstæður sem fjallað er um í skýrslunni en Brunamálastofnun mun vinna að framkvæmd annarra atriða og ábendinga sem fram koma í skýrslunni.

Við gerð úttektarinnar hafði Brunamálastofnun samráð við Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins, Lögreglustjórann í Reykjavík, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans, Úrvinnslu­sjóð, Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, Vinnueftirlitið og Umhverfisstofnun.

Fréttatilkynning nr. 1/2005
Umhverfisráðuneytið



Úttekt Brunamálastofnunar vegna Brunans á athafnasvæði Hringrásar ehf. 22. nóvember 2004

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum