Hoppa yfir valmynd
17. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Auka á endurvinnslu og endurnýtingu á pappa-, pappírs- og plastumbúðum

Alþingi hefur samþykkt frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 162/2002 um úrvinnslugjald. Lögin fela m.a. í sér ákvæði um álagningu úrvinnslugjalds á allar pappa-, pappírs- og plastumbúðir. Gjaldið mun standa undir innsöfnun, flokkun, flutningi, endurvinnslu og endurnýtingu umbúðanna. Einnig er gjaldinu ætlað að virka hvetjandi til að minnka umbúðamagn utan um vöru.

Umbúðamagn hefur aukist hröðum skrefum á undanförnum árum og er áætlað að um 27.000 tonn af pappa- og pappírsumbúðum falli til árlega á Íslandi. Alls eru þetta um 93 kíló af pappa- og pappírsumbúðum á hvern íbúa landsins á ári. Plastumbúðir sem falla til árlega eru áætlaðar um 8.400 tonn að meðtöldu heyrúlluplasti sem er 1.600 tonn á ári.

Markmið stjórnvalda með lögunum er að á allra næstu árum náist að flokka og endurvinna um 15-20% umbúðanna, þ.e. að búa til nýja vöru úr vöruafgöngunum. Jafnframt er stefnt að því að heildarendurnýting á pappa-, pappírs- og plastumbúða verði um 50-65%.

Allnokkur kostnaður fylgir þessari meðhöndlun umbúða. Úrvinnslusjóður gerir ráð fyrir að innheimta úrvinnslugjalds verði um 320 milljónir á ári og er gjaldinu ætlað að standa undir meðhöndlun á flokkuðum úrgangi. Áætlað söluverðmæti þess varnings sem seldur er í umræddum umbúðum eru 180-200 milljarðar á ári, þannig að gert er ráð fyrir að álagning úrvinnslugjalds muni hafa óveruleg áhrif á verðlag í landinu.

Til þess að ná ofangreindum markmiðum verða fyrirtæki og heimili að taka virkan þátt í innsöfnun á flokkuðum úrgangi. Fyrirtæki geta nú þegar í auknum mæli farið að flokka úrgang við starfstöðvar sínar en innsöfnun á umbúðum frá fyrirtækjum og bylgjupappaumbúðum frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga skal hefjast 1. apríl 2005. Innheimta úrvinnslugjalds á þessar umbúðir hefst 1. september 2005 og innsöfnun frá almenningi eigi síðar en 1. mars 2006.

Fréttatilkynning nr. 50/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum