Hoppa yfir valmynd
16. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra tilkynnir um aukna þróunaraðstoð á sviði endurnýjanlegrar orku

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra sagði í ræðu á 10. aðildarríkjaþingi Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í dag, 16. desember, að loftslagsvæn tækni, ekki síst í orkumálum, gæti átt stóran þátt í draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og veðurfarsbreytingum af þeirra völdum. Hún tilkynnti að Ísland hygðist auka þróunaraðstoð sína og verulegum hluta þessarar aukningar yrði varið í að styðja framkvæmdir á sviði endurnýjanlegrar orku í smáeyjaríkjum. Hún nefndi einnig að Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hygðist færa út kvíarnar og halda þjálfunarnámskeið í Afríku, Asíu og Mið-Ameríku á næstu fjórum árum. Hundruð milljóna manna eigi kost á að nýta sér hreina orku frá jarðhita víðsvegar í heiminum. Ísland hefði náð miklum árangri við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda og vildi aðstoða önnur ríki sem ættu svipaðar auðlindir að nýta þær, íbúum til hagsbóta og til að draga um leið úr mengun andrúmsloftsins.

Önnur tækni sem gæti lyft grettistaki við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þegar til lengri tíma er litið, er nýting vetnis sem orkubera, sagði umhverfisráðherra í innleggi sínu í pallborðsumræðum um tækni og loftslagsbreytingar. Strætisvagnar knúnir vetni væru nú á götum Reykjavíkur og gæfu almenningi forsmekkinn að hreinni framtíð. Alþjóðlegt samstarf í vetnismálum gæti hraðað þeirri þróun.

Umhverfisráðherra tók einnig til máls í umræðum ráðherra um aðlögun að loftslagsbreytingum. Hún sagði að loftslagsbreytingar hefðu nú þegar áhrif á norðurslóðum og að í nýrri skýrslu Norðurskautsráðsins kæmi fram að líkur væru á að hlýnun yrði tvöfalt hraðari á norðurheimskautssvæðinu en að jafnaði á jörðinni. Norðurskautsráðið hefði m.a. samþykkt á ráðherrafundi í Reykjavík í nóvember að hefja starf sem miðaði að því að auðvelda aðlögun íbúa að þeim breytingum sem í vændum væru. Það starf myndi vafalaust fela í sér lærdóm fyrir íbúa á öðrum svæðum og íbúar norðurslóða gætu líka margt lært af öðrum. Þing Loftslagssamnings S.þ. væru ákjósanlegur vettvangur til að ræða reynslu ríkja og lausnir á sviði aðlögunar.

Aðlögun að loftslagsbreytingum er nauðsynleg, sagði umhverfisráðherra, því einhverjar loftslagsbreytingar væru óhjákvæmilegar jafnvel þótt markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda náist. Erfitt væri að spá nákvæmlega um áhrif loftslagsbreytinga á einstök svæði og hvert land þyrfti að gera áætlanir sem tækju mið af aðstæðum. Alþjóðasamfélagið þyrfti þó að koma þeim til aðstoðar sem ekki hefðu til þess burði og byggju við mesta ógn af loftslagsbreytingum, s.s. smáeyjaríkjum. Ísland lýsti þess vegna yfir stuðningi við þá auknu áherslu sem aðlögun að loftslagsbreytingum hefði fengið á þessu aðildarríkjaþingi.

10. aðildarríkjaþingi Loftslagssamningsins lýkur á morgun, 17. desember, í Buenos Aires, með því að gengið verður frá ýmsum ákvörðunum sem lúta að framkvæmd samningsins og Kýótó-bókunarinnar.

Fréttatilkynning nr. 49/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum