Hoppa yfir valmynd
15. desember 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherrafundur Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna

Ráðherrafundur 10. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefst í dag, 15. desember, í Buenos Aires í Argentínu. Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, situr fundinn fyrir Íslands hönd.

Á ráðherrafundinum, sem stendur yfir 15.-17. desember, verða teknar ýmsar ákvarðanir sem lúta að framkvæmd og útfærslu þeirra skuldbindinga sem fylgja aðild að Loftslagssamningnum og Kýótó-bókuninni. Á dagskrá fundarins eru fjórar pallborðsumræður ráðherra, þar sem rædd verða eftirfarandi efni:

  • 10 ár frá gildistöku loftslagssamningsins: Árangur og framtíðarviðfangsefni
  • Áhrif loftslagsbreytinga, aðgerðir til aðlögunar og sjálfbær þróun
  • Tækni og loftslagsbreytingar
  • Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: Stefnumörkun og áhrif hennar

Á aðildarríkjaþinginu nú hefur verið mikil umræða um aðlögun að loftslagsbreytingum og til hvaða aðgerða megi grípa til að auðvelda ríkjum hana. Áherslan í umræðunni á fyrri fundum hefur einkum verið á aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis í gróðri, en talið er víst að einhverjar loftslagsbreytingar muni eiga sér stað jafnvel þótt markmið um minnkað útstreymi náist. Því er talið æskilegt að efla samstarf um að aðstoða þau ríki og svæði sem kunna að verða illa úti vegna loftslagsbreytinga, svo sem ýmis fátæk smáeyjaríki.

Einnig hefur verið óformlega rætt á þinginu um að hefja hugsanlega viðræður á næsta ári um hvað taki við eftir lok fyrsta skuldbindingartímabils Kýótó-bókunarinnar árið 2012, enda liggur nú fyrir að bókunin tekur gildi 16. febrúar 2005. Ekkert liggur þó fyrir um það enn hvort nokkur ákvörðun þar að lútandi verði tekin á þessu aðildarríkjaþingi.

Sérstök kynning á skýrslu Norðurskautsráðsins um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum (ACIA-skýrslan) var haldin í húsakynnum aðildarríkjaþingsins í fyrradag 13. desember, fyrir fullum sal. Eins og kunnugt er var skýrslan kynnt og rædd á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Reykjavík 24. nóvember sl., en þar var einnig samþykkt yfirlýsing þar sem kveðið er á um eftirfylgni skýrslunnar, þ.á m. hvernig ríki geti undirbúið aðlögun að loftslagsbreytingum.

Fréttatilkynning nr. 48/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum