Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi minnkar á milli ára

Save our Climate
Climatesymbol40k

Ísland hefur sent inn nýja útreikninga á útstreymi og bindingu gróðurhúsalofttegunda (GHL) á árunum 1990-2002 til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt þeim jókst heildarútstreymið um 0,2% frá árinu 2001 til 2002. Ef binding kolefnis í gróðri er talin með, minnkaði nettólosun GHL um 0,3% á milli ára.

Skuldbindingar Íslands samkvæmt Kýótó-bókunni eru tvíþættar. Annars vegar skal almennt útstreymi GHL frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, þ.e. vera innan við 3.650 þúsund tonn koltvíoxíðsígilda árlega að meðaltali á tímabilinu 2008-2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðsútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 sem fellur undir sérstakt ákvæði (svokallað "íslenska ákvæði") ekki vera meira árlega en 1.600 þús. tonn að meðaltali árin 2008-2012. Þetta útstreymi verður bókað sérstaklega utan almennra losunarheimilda Íslands þegar Kýótó-bókunin gengur í gildi.

Árið 1990 var heildarútstreymi GHL á Íslandi um 3,3 milljónir tonna. Árið 2002 var heildarútstreymið orðið 3,6 milljónir tonna og hafði því aukist um 9% á tímabilinu. Sé tekið tillit til bindingar GHL með landgræðslu og skógrækt hefur nettóútstreymi aukist um 4% frá 1990.

Sé staðan metin í ljósi ákvæða Kýótó-bókunarinnar kemur í ljós að nettólosun GHL miðað við almennar losunarheimildir Íslands hefur dregist saman um tæp 9% frá 1990 til 2002 (sjá mynd 1). Nettólosun skv. þessari forsendu minnkaði um 1% á milli áranna 2001 og 2002.

Útreikningar á losun GHL eru gerðir af Umhverfisstofnun og taka mið af reiknireglum Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC). Skrifstofa Loftslagssamnings S.þ. leitast við að tryggja að útreikningar séu sambærilegir á milli landa, en hluti af því ferli er að endurskoða útreikninga hvers lands og koma með ábendingar. Þeir útreikningar sem Ísland skilar til Loftslagssamningsins að þessu sinni taka tillit til ábendinga frá skrifstofunni og hafa forsendur útreikninga á nokkrum liðum breyst frá fyrri skýrslum. Frekari skýringar á breyttum forsendum og niðurstöðum útstreymisreikninga er að finna hér að neðan.

Sé heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda 2002 skipt eftir lofttegundum (sjá mynd 2), þá var útstreymi koltvíoxíðs mest eða um 74% af heildarlosun. Útstreymi metans var 15% af heildarlosun, tvíköfnunarefnisoxíðs 8%, flúorkolefna (PFC) 2% og annarra lofttegunda (HFC og SF6) 1%.

Sé útstreymi GHL 2002 skipt eftir atvinnugreinum og öðrum geirum (sjá mynd 3), þá má rekja um 25% þess til iðnaðarferla í stóriðju, en um 9% til eldsneytisbrennslu í iðnaði og byggingarstarfsemi. Um 20% má rekja til fiskveiða og 19% til samgangna. Landbúnaður er uppspretta um 14% útstreymis GHL og fiskimjölsverksmiðjur um 5%. Um 7% útstreymisins er vegna metans frá urðunarstöðum. Binding kolefnis með skógrækt og landgræðslu nam um 163 þúsund tonnum CO2 árið 2002, en hún vegur á móti útstreymi gróðurhúsalofttegunda.

Meðalútstreymi GHL á hvern mann á Íslandi var 11,7 tonn árið 2002, miðað við þær forsendur við samanburð ríkja sem liggja til grundvallar Kýótó-bókunarinnar. Ísland er 14. í röð 24 iðnvæddra ríkja (þ.e. ríkja sem tilgreind eru í viðauka II í Loftslagssamningnum), hvað varðar magn útstreymis GHL (sjá mynd 4), miðað við árið 2000. Heildarútstreymi á mann er ívið meira ef einnig er tekið með útstreymi frá nýrri stóriðju sem fellur ekki undir almennar losunarheimildir Íslands skv. Kýótó-bókuninni, eða um 12,7 tonn á mann.

Breytingar á aðferðafræði frá fyrri útstreymistölum

Ísland hefur skilað inn útreikningum á útstreymi gróðurhúsalofttegunda reglulega á undanförnum árum til skrifstofu Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Eftir að Ísland skilaði inn útreikningum árið 2003 sendi skrifstofa Loftslagssamningsins inn athugasemdir varðandi forsendur útreikninga á nokkrum liðum. Samkvæmt athugasemdunum var forsendum og aðferðafræði við útreikninga á nokkrum liðum breytt, einkum varðandi útstreymi metans og tvíköfnunarefnisoxíðs.

Samkvæmt hinum nýju reikniaðferðum er útstreymi frá Íslandi meira en hingað til hefur verið talið, en mismunurinn er um 16% að meðaltali á hverju ári. Mismunurinn skýrist að hluta vegna útstreymis frá landbúnaði: losun metans frá búfé og búfjáráburði og tvíköfnunarefnisoxíðs vegna áburðarnotkunar. Einnig virðist útstreymi metans frá urðunarstöðum vera mun meira en reiknað hefur verið með hingað til.

Nýir útreikningar Umhverfisstofnunar á losun flúorkolefna frá áliðnaði eru miðaðar við nýjar reiknireglur og gefa hærri niðurstöður en fyrri útreikningar. Þessi nýja reikniaðferð gefur niðurstöður sem virðast falla betur en fyrri aðferðir að þeim útstreymismælingum á flúorkolefnum sem gerðar hafa verið. Nýju útreikningarnir sýna að losun hefur verið mun meiri árið 1990 en áður var talið, en einnig að árangur sem náðst hefur við minnkun útstreymis flúorkolefna er meiri en haldið var.

Bókhald um útstreymi og bindingu gróðurhúsalofttegunda er ferli stöðugrar endurskoðunar og mun væntanlega koma til með taka breytingum áfram, eftir því sem betri gögn fást og þekking eykst, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi.

Athugasemd vegna fréttar um útstreymi koltvíoxíðs frá Íslandi

Hermt hefur verið í fréttum að útstreymi koltvíoxíðs, sem er veigamesta gróðurhúsalofttegundin, sé um tífalt meiri frá Íslandi en heimsmeðaltal. Þetta er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem umhverfisráðuneytið hefur undir höndum. Samkvæmt tölum frá Alþjóða orkumálastofnuninni (IEA), sem skrifstofa Loftslagssamningsins vitnar til í sínum gögnum, er útstreymi CO2 að meðaltali 3,9 tonn á hvern jarðarbúa. Samsvarandi tala fyrir Ísland er um 8,8 tonn, þannig að losunin er rúmlega tvöföld miðað við heimsmeðaltal, en ekki tíföld (sjá mynd 5).

Töflur með fréttinni:

1. Útstreymi GHL 1990-2002Útstreymi gróðurúsalofttegunda að teknu tilliti til bindingar 1990 - 2002.

2. Útstreymi GHL 2002, skipt eftir lofttegundum

Hlutfall heildarútstreymis skipt eftir lottegundum 2002

3. Útstreymi GHL 2002, skipt eftir geirum

Hlutfall heildarútstreymis skipt eftir geirum 2002

4. Útstreymi GHL á mann 2000, Ísland og önnur Annex-II ríki

Losun gróðurhúsalofttegunda á íbúa árið 2000

5. Útstreymi CO2 á mann frá Íslandi, völdum ríkjum og heiminum að meðaltali

Losun koltvíoxíðs (CO2) á íbúa árið 1999

Fréttatilkynning nr. 27/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum