Hoppa yfir valmynd
28. júní 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nýsamþykkt lög á sviði umhverfisráðuneytisins

Á 130. löggjafarþingi Alþingis sem er nýlokið voru sex frumvörp sem umhverfisráðherra lagði fram samþykkt sem lög.

Ný lög um varnir gegn mengun hafs og stranda nr. 33/2004. Hér er um nýja heildarlöggjöf að ræða sem tekur við af lögum um varnir gegn mengun hafsins nr. 32/1986. Markmið laganna er að vernda hafið og stendur landsins gegn mengun. Helstu nýmæli laganna eru ákvæði um bráðamengun, þar með talið ábyrgð á tjóni vegna bráðamengunar.

Ný lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu sem koma í stað eldri laga frá 1974. Samkvæmt nýju lögunum njóta Laxá, Mývatn og nálæg votlendissvæði sérstakrar verndar en gert er ráð fyrir að önnur svæði í Skútustaðahreppi sem hafa hátt verndargildi verði friðlýst á grundvelli náttúruverndarlaga. Í lögunum eru einnig nýmæli um vernd vatnasviðs Laxár og Mývatns og um gerð verndaráætlunar fyrir Laxá og Skútustaðahrepp.

Lög nr. 96/2004 um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1988, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar á lögunum vegna innleiðingar tilskipunar 98/8/EB um markaðssetningu sæfiefna en von er á reglugerð sem byggir á ákvæðum tilskipunarinnar síðar á þessu ári.

Lög nr. 94/2004 um breytingu á lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum. Veigamestu breytingarnar í þessu frumvarpi snúa að því að tryggja verndun arnarstofnsins.

Lög nr. 102/2004 um breytingu á lögum nr 81/1997 um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða. En samkvæmt lögnum er stjórn stofnunarinnar lögð niður.

Og að lokum lög nr. 82/2004 um breytingu á lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, með síðari breytingum. Í lögunum er kveðið á um hækkun umsýsluþóknunar á einnota umbúðum úr ólituðu plastefni fyrir drykkjarvörur.

Fréttatilkynning nr. 24/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum