Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Beina þarf kröftum og athygli að velferð mannkyns

Siv og Klaus Töpfer, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, ræða um fund Sþ um sjálfbæra þróun29/04/2004.
topfer_&_Siv_29.4

Í dag lauk 12. fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (CSD) í New York. Eitt hundrað ráðherrar sóttu fundinn og hafa aldrei fleiri ráðherrar sótt fund nefndarinnar frá stofnun hennar árið 1993.

Kofi Annan framkvæmdastjóri S.þ. ávarpaði fundinn og sagði í ræðu sinni að athygli heimsbyggðarinnar hafi beinst frá sjálfbærri þróun að undanförnu og að hryðjuverkum, gereyðingarvopnum og Íraksstríðinu. Þótt slíkt væri skiljanlegt mætti ekki frekar beina athygli og kröftum frá hinni víðtækari baráttu fyrir almennri velferð mannkynsins. Milljarðar manna byggju við óviðunandi aðstæður og milljónir barna veiktust og dæju á ári hverju vegna skorts á hreinu drykkjarvatni og lágmarks hreinlætisaðstöðu.Kofi Annan, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og frú á fundi um sjálfbæra þróun í aðalstöðvum Sþ í New York 29/04/2004

Á fundinum var rætt um framkvæmd samþykkta Jóhannesarborgar-ráðstefnunnar 2002, einkum þeirra er snúa að verndun ferskvatns, hreinlætismálum og skyldum málum. Fram kom á fundinum að um 50% þróunarríkja væru langt komin með að gera áætlanir um samþætta vatnsvernd, en einungis 30% hefðu hafið gerð áætlunar um aðgang að hreinlætisaðstöðu. Enn er því nokkuð í land til að ná markmiðum Jóhannesarborgarfundarins og þarf verulega að herða róðurinn ef takast á að ná settum markmiðum um umbætur. Til þess að ná þeim þarf m.a. að auka framlög til þróunaraðstoðar.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra gerði á fundinum grein fyrir nýlegri ákvörðun um að þróunarframlög Íslands yrðu aukin. Hún nefndi einnig að umbætur í vatnsmálum og fráveitumálum tengdust baráttunni gegn mengun hafsins og benti á nauðsyn þess að styrkja framkvæmd alþjóðlegrar áætlunar um varnir gegn mengun sjávar frá landi.

Fréttatilkyning nr. 18/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum