Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fundur umhverfisráðherra OECD ríkjanna

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, sótti fund umhverfisráðherra OECD ríkjanna í París, 20. - 21. apríl 2004. Á fundinum sem lauk í dag var rætt um stöðu í umhverfismála í ríkjum OECD og framgang stefnumiða OECD í málaflokknum fram til ársins 2010 sem samþykkt voru af umhverfisráðherrum OECD árið 2001. Fjallað var um leiðir til að tryggja betri framgang á sviði umhverfismála, sérstaklega með notkun efnahagsstjórntækja svo sem umhverfisgjalda og skatta.

Í skýrslu um stöðu mála í OECD ríkjunum, sem lá fyrir ráðherrafundinum kemur m.a. fram að þótt ýmislegt hafi áunnist s.l. 3 ár í löndum OECD í umhverfismálum þá miðar stefnumiðum OECD hægt og því sé nauðsynlegt að grípa til róttækari aðgerða ef sett markmið eiga að nást fyrir árið 2010.

Bent er sérstaklega á að herða þurfi aðgerðir til að draga úr hættu á loftlagsbreytingum og styrkja aðgerðir til að vernda líffræðilega fjölbreytni og minnka vatnsmengun.

Meðal þeirra atriða sem lögð er áhersla á, er að efla notkun hagrænna stjórntækja og afnema niðurgreiðslur sem hafa í för með sér aukna ánauð á umhverfið, svo sem framleiðslutengdar niðurgreiðslur í landbúnaði.

Í skýrslunni er íslenska kvótakerfið tekið sem gott dæmi um hagræna stjórnun, sem hafi virkað vel við að stýra auðlindanýtingu á hagkvæman hátt.

Á fundinum lagði umhverfisráðherra áherslu á markvissari aðgerðir ríkja til varnar vatnsmengun og mengun sjávar og hvatti OECD ríkin til að fylgja betur eftir alþjóðlegri framkvæmdaáætlun um varnir gegn mengun sjávar frá landi sem ríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu árið 1995. Þannig mætti ná fram markmiðum OECD um minni vatnsmengun og stuðla að vernd líffræðilegs fjölbreytileika í sjó og vötnum.

Varðandi reynslu Íslands af beitingu hagrænna stjórntækja skýrði umhverfisráðherra frá að íslensk stjórnvöld hefðu náð góðum árangri í bættri meðhöndlun spilliefna með álagningu spilliefnagjalds árið 1997. Ennfremur að með stofnun Úrvinnslusjóðs á síðasta ári myndi endurvinnsla og endurnotkun úrgangs stóraukast á næstu árum.

Fréttatilkynning nr. 12/2004

Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum