Hoppa yfir valmynd
21. apríl 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra fagnar sigri í baráttunni gegn mengun frá Sellafield

- Niðurstöður tilraunaverkefnis sýna að hægt er að minnka losun á teknetíni frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield um 90% -

Í dag birtu bresk stjórnvöld niðurstöður tilraunaverkefnis sem miðar að því að draga verulega úr losun á teknetíni (Tc-99) frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Niðurstöður sýna að hægt er að minnka losun á teknetíni frá Sellafield um 90%. Núverandi losun nemur 90 TBq á ári, en samkvæmt þessum niðurstöðum verður losunin undir 10 TBq á ári þegar í stað.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra fagnar þessum mikilvæga áfanga í baráttunni gegn losun mengandi efna í hafið. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil haldið uppi mótmælum við losun geislavirkra efna í hafið frá kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra hefur átt fjölmarga tvíhliða fundi með breskum starfsbræðrum sínum, heimsótt endurvinnslustöðina í Sellafield og rætt við stjórnendur hennar þar sem losun teknetíns hefur verið megin umræðuefnið. Einnig hefur ráðherra ásamt umhverfisráðherrum hinna Norðurlandanna ítrekað beitt bresk stjórnvöld þrýstingi vegna þessa máls og brýnt fyrir þeim þá hættu sem hreinleika Norður Atlantshafsins stafar af losun geislavirkra efna frá Sellafield. Hefur þessi þrýstingur á bresk stjórnvöld stuðlað að því að verulega hefur dregið úr losun á geislavirkum efnum frá Sellafield hin seinni ár, ef frá er talin aukin losun á teknetíni sem hófst árið 1994. Árið 2000 var losun á teknetíni minnkuð um 55%, úr 200 TBq á ári í 90 TBq á ári og nú er ljóst að enn frekar mun draga úr losuninni þannig að hún verður ekki nema 5% af því sem hún var árið 2000. Teknetínið sem hreinsað verður úr frárennsli endurvinnslustöðvarinnar verður geymt í föstu formi í geymslum fyrir kjarnorkuúrgang á landi í Bretlandi.

Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra segir það mikilvæg tímamót að strax verði hægt að ná losun teknetíns frá Sellafield niður fyrir 10 TBq á ári. Barátta Íslands, Noregs og Írlands undanfarin ár sé nú að skila sér.

Fréttatilkynning nr. 11/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum