Hoppa yfir valmynd
29. mars 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Fyrsta úthlutun úr Kvískerjasjóði fór fram í gær.

Merki Kvískerjasjóðs
Kvískerjasjóður

Í gær var úthlutað í fyrsta sinn rannsóknastyrkjum úr Kvískerjasjóði. Styrkirnir voru afhentir í samsæti í Freysnesi í Öræfasveit að viðstöddum gestum. Kvískerjasjóður var stofnaður á síðasta ári af umhverfisráðuneytinu, til heiðurs systkinunum á Kvískerjum í Öræfum fyrir framlag þeirra til öflunar þekkingar og rannsókna á náttúru og sögu Austur Skaftafellssýslu. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúrufari og menningarminjum í Austur Skaftafellssýslu með veitingu rannsóknastyrkja til einstaklinga og stofnana. Höfuðstóll sjóðsins var 25 milljónir króna við stofnun hans og stjórn sjóðsins ákvað að veita 1.240 þús. kr í fyrstu úthlutun. Við úthlutun var m.a. tekið tillit til vísindalegs gildis og tengsla verkefnis við störf og fræðasvið Kvískerjasystkina. Alls bárust 14 umsóknir en fjögur verkefni hlutu styrk að þessu sinni:

Neðri röð frá vinstri: Hálfdán Björnsson, Helgi Björnsson og Sigurður Björnsson.Uppbygging gagnabanka fyrir gjóskulög í jarðvegssniðum sunnan Vatnajökuls. Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði, kr. 440.000. Þétt net vel greindra gjóskulagasniða er lykilatriði að aukinni þekkingu á sögu landmótunar. Markmið þessa verkefnis er að byggja upp gagnabanka fyrir gjóskulög í jarðvegssniðum fyrir Austur-Skaftafellssýslu. Stefnt er að því að setja allar upplýsingar inn í landfræðilegan gagngrunn og kortleggja gjóskulögin bæði í tíma og rúmi. Verkefnið er unnið í samstarfi nokkurra aðila m.a. við Þórbergssetur í Suðursveit.

Búsvæðaval og afkoma óðinshana og þórshana í Öræfum. Líffræðistofnun Háskólans, kr. 360.000. Þórshana og óðinshana virðist hafa fækkað hér við land síðari ár. Varpstofn þórshana er mjög lítill, en eitt helsta varpsvæði þórshanans hefur á síðustu árum verið í Austur-Skaftafellssýslu. Markmið rannsóknarinnar er að lýsa búsvæðavali og afkomu óðinshana og þórshana innan sama svæðis í Öræfum. Stefnt er að því að niðurstöðurnar auðveldi það að hægt verði að fylgjast með stofnbreytingum þessara tegunda í framtíðinni.

Rannsóknir á eyðibýlinu undir Salthöfða. Fornleifafélag Öræfa, kr. 240.000. Unnið hefur verið að fornleifagreftri við Salthöfða í Öræfum undanfarin tvö sumur. Grunur manna um bæjarrústir undir þykku gjóskulagi úr Öræfajökulsgosinu 1362 var staðfestur árið 2002 og á síðasta ári var unnið við að grafa ofan af rústunum. Markmið rannsóknarinnar í ár er að rannsaka tóftina við Salthöfða og bera saman við Gröf, en á þessu ári eru 50 ár liðin frá því að Sigurður Björnsson á Kvískerjum fann eyðibýlið Gröf.

Erfðbreytileiki hrafnaklukku á Íslandi með sérstöku tilliti til stofna er bera hvít blóm og hafa frábrugðið blaðform. Bjarni Diðrik Sigurðsson vistfræðingur og Starri Heiðmarsson, grasafræðingur, kr. 200.000. Markmið verkefnisins er að kanna stöðu hvítblóma hrafnaklukka innan tegundarinnar. Hálfdán Björnsson á Kvískerjum tók fyrstur eftir því sem honum þótti Sigurlaug formaður Kvískerjasjóðs afhenti Karli Guðna Kristjánssyni viðurkenningu fyrir besta merkið.afbrigðilegar hrafnaklukkur í ferðum sínum á Kristínartinda í Skaftafelli. Síðan þá hafa þessar afbrigðilegu hrafnaklukkur fundist víðar í fjalllendi Austur-Skaftafellssýslu. Hálfdán hefur sett fram þá kenningu að um undirtegund hrafnaklukku sé að ræða sem hafi þraukað af a.m.k. síðasta kuldaskeið ísaldar á hálendari svæðum.

Nemendur 10. bekkjar í Heppuskóla á Höfn í Hornafirði fengu það verkefni frá stjórn Kvískerjasjóðs að gera tillögur að merki fyrir Kvískerjasjóð. Undir handleiðslu kennara síns, Árna Péturs Hilmarssonar, hönnuðu þau nokkrar tillögur. Stjórn sjóðsins valdi tillögu Karls Guðna Kristjánssonar og var honum afhent áritað eintak af Kvískerjabók í viðurkenningarskini.

Stjórn sjóðsins skipa: Sigurlaug Gissurardóttir, formaður, Albert Eymundsson og Einar Sveinbjörnsson.

Fréttatilkynning nr. 9/2004
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum