Hoppa yfir valmynd
25. mars 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Norrænir umhverfisráðherrar ræða hættuleg efni

Í dag var haldinn fundur umhverfisráðherra Norðurlandanna í Kaupmannahöfn undir formennsku Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra. Á fundinum var m.a. rætt um stefnumörkun Evrópusambandsins um skráningu og eftirlit með notkun hættulegra efna í iðnaði og neysluvörum. Á fundinum var einnig kynnt ný skýrsla um málið sem unnin var af norrænum samtökum um umhverfis- og neytendamál. Ráðherrarnir ræddu einnig samninga um alþjóðlega stefnumörkun um hættuleg efni en Ísland gegnir formennsku í þeim viðræðum.

Ráðherrarnir voru sammála um að vinna að því á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að Eystrasaltið verði skilgreint sem viðkvæmt hafsvæði þannig að unnt sé að gera auknar kröfur til skipa sem sigla inn á svæðið.

Rætt var um undirbúning ráðherrafundar Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hefst í Kóreu á mánudaginn og um fund nefndar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem hefst í New York í 14. apríl. Á báðum þessum fundum verður leitað leiða til þess að auka aðgengi almennings í þróunarríkjunum að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu en skortur á þessum grunnþáttum á mikinn þátt í þeirri fátækt og sjúkdómum sem viðvarandi eru í mörgum þróunarríkjum.

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um starfsemi Norræna umhverfisfjárfestingarsjóðsins sem fjárfestir í umhverfisverkefnum í Eystrasaltsríkjunum og Norð-vestur Rússlandi og um umhverfisverkefni sem Norræni fjárfestingabankinn kemur að.

Fréttatilkynning nr. 7/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum