Hoppa yfir valmynd
23. febrúar 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Konum fjölgar í yfirstjórn umhverfisráðuneytisins

Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Auður Arnardóttir og Una María Óskarsdóttir
HÁÞ, SF, SAA og UMÓ
Nú í febrúar urðu þau tímamót að í fyrsta sinn eru konur í meiri hluta yfirstjórnar umhverfisráðuneytisins. Um áramótin tók Una María Óskarsdóttir við starfi aðstoðarmanns umhverfisráðherra af Einari Sveinbjörnssyni sem hvarf til sinna fyrri starfa á Veðurstofu Íslands. Í byrjun febrúar tók Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir við starfi skrifstofustjóra almennrar skrifstofu til þriggja ára í afleysingum fyrir Þórð H. Ólafsson sem verður fulltrúi ráðuneytisins í sendiráðinu í Brussel. Frá og með febrúar 2004 eru því konur í yfirstjórn ráðuneytisins fjórar en karlar þrír.

Yfirstjórn ráðuneytisins skipa, Siv Friðleifsdóttir ráðherra, Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri, Una María Óskarsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og skrifstofustjórarnir Halldór Þorgeirsson, Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, Ingimar Sigurðsson og Sigríður Auður Arnardóttir.

Þegar Siv Friðleifsdóttir tók við ráðherraembætti árið 1999 var hún fyrsta konan í yfirstjórn ráðuneytisins frá upphafi þannig að miklar breytingar hafa orðið á stuttum tíma. Það er stefna ráðuneytisins að hlutur kvenna í yfirmannsstöðum og nefndum á vegum ráðuneytisins aukist jafnt og þétt þannig konur komi í jafn miklum mæli og karlar að stjórn og stefnumótun í umhverfismálum.

Fréttatilkynning nr. 4/2004
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum