Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tímabundin friðun helsingja á nýjum varpstöðvum

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur breytt reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum, í því skyni að friða varpstofn helsingja í Austur-Skaftafellssýslu.

Helsingi hefur viðkomu á Íslandi til og frá varpstöðvum á Grænlandi og víðar, en hann hefur þar til nýlega ekki talist til varpfugla hér á landi. Á undanförnum árum hefur hins vegar byggst upp lítill varpstofn helsingja í Austur-Skaftafellssýslu. Í erindi frá Fuglaverndarfélagi Íslands til umhverfisráðuneytisins var lýst áhyggjum yfir því að veiðar gætu útrýmt þessum vísi að varpstofni og þess farið á leit að hann væri friðaður. Í umsögn ráðgjafanefndar um villt dýr var tekið undir þessi sjónarmið og lagt til að varpstofninn yrði friðaður. Skotveiðifélag Ísland mælti einnig með því í bréfi til ráðuneytisins að helsingjastofninn í Austur-Skaftafellssýslu yrði friðaður tímabundið.

Samkvæmt reglugerðinni var leyfilegt að veiða helsingja frá 1. september til 15. mars ár hvert og sú regla gildir áfram utan Austur-Skaftafellssýslu. Þar er friðun helsingja aflétt frá 25. september til 15. mars, sem á að tryggja að helsingjar frá varpstöðvum á Grænlandi verði komnir á veiðisvæðin í Austur-Skaftafellssýslu áður en veiðar á svæðinu hefjast. Þetta er gert í þeim tilgangi að minnka líkur á að íslenski varpstofninn verði veiddur. Þessi stytting á veiðitíma helsingja í Austur-Skaftafellssýslu skal endurskoðuð eftir fimm ár.
Fréttatilkynning nr. 34/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum