Hoppa yfir valmynd
4. ágúst 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra staðfestir úrskurði skipulagsstjóra

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur staðfest tvo úrskurði skipulagsstjóra varðandi mat á umhverfisáhrifum, sem kærðir voru til umhverfisráðuneytisins. Annars vegar er um að ræða úrskurð varðandi sorpförgun Byggðasamlagsins Hulu og hins vegar varðandi Þingvallaveg og námugröft samhliða honum.

Byggðasamlagið Hula - sorpurðun á Stjórnarsandi

Í apríl sl. féllst skipulagsstjóri á sorpförgun á vegum Byggðasamlagsins Hulu, en að því standa Vestur-Eyjafjallahreppur, Austur-Eyjafjallahreppur, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Ákveðnir fyrirvarar voru gerðir, m.a. þarf að afgreiða deiliskipulag urðunarsvæðis á Stjórnarsandi og breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins áður en framkvæmdir mega hefjast þar. Úrskurður skipulagsstjóra var kærður til umhverfisráðherra hvað varðar fyrirhugaða urðun sorps á Stjórnarsandi.

Í kærunni segir að fyrirhugað urðunarsvæði á Stjórnarsandi sé mjög viðkvæmt gróðurfarslega og rof á gróðurþekju svæðisins geti haft ófyrirséðar afleiðingar í för með sér hvað varðar fok. Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins segir að skipulagsstjóri hafi leitað umsagnar Landgræðslu ríkisins, sem telji tillit hafa verið tekið til ábendinga stofnunarinnar. Landgræðslan þekki best til hættu á sandfoki á svæðinu og ráðuneytið geti því ekki fallist á þennan þátt kærunnar. Í kærunni er bent á að mengunarhætta geti stafað af urðuninni og að hún geti hugsanlega haft áhrif á fiskgengd í Skaftá. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að óttast mengun eða minnkandi fiskgengd í Skaftá og bendir á að ef talin er þörf á sérstökum aðgerðum vegna hættu á mengun muni Hollustuvernd ríkisins taka á þeim þætti í starfsleyfi.

Þingvallavegur - námugröftur í Miðfelli

Í apríl sl. féllst skipulagsstjóri á fyrirhugaðar úrbætur á Þingvallavegi frá Steingrímsstöð að þjóðgarðsmörkum, með þeim skilyrðum að jarðraski verði haldið í lágmarki og samráð haft við Náttúruvernd ríkisins um afmörkun námusvæða, jarðefnisnám og frágang námusvæða og vegfláa. Þessi úrskurður var kærður til umhverfisráðuneytisins, þ.e. sá hluti hans sem snýr að námugreftri í Stekkjarhornsnámu í Miðfelli.

Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins segir m.a. að núverandi ástand námunnar sé alls óviðunandi og jafnframt sé ljóst að brottnám 25.000 m3 af efni muni breyta útliti fjallsins. Í niðurstöðum skipulagsstjóra komi hins vegar fram að brottnám efnis og frágangur námunnar miðist við að ekki verði um frekari efnistöku að ræða. Þá verði efnisnám úr Stekkjarhornssnámu í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Ekki sé unnt að fallast á þá fullyrðingu kæranda að vinnslan muni gjöreyðileggja fjallið og ráðuneytið telji það horfa til bóta að gengið verði frá námunni og að þar verði ekki um frekari vinnslu að ræða. Eftir endanlega lokun og frágang námunnar verði svæðið í framtíðinni betur fallið til friðunar en nú er. Í kærunni segir að nægjanlegt efni hafi verið til reiðu og falt til vegagerðar á Syðri-Brú og því ástæðulaust að sækjast eftir efni úr Miðfelli. Varðandi það atriði segir í niðurstöðu ráðuneytisins að ástæðan fyrir efnistöku úr Miðfelli sé ekki efnisskortur, heldur fyrst og fremst sú að ætlunin sé að laga námuna.

Fréttatilkynning nr. 32/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum