Hoppa yfir valmynd
28. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Niðurstöður og eftirfylgni OSPAR-fundar

Umhverfisráðherrar aðildarríkja OSPAR samningsins, sem fjallar um vernd hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins, funduðu í Sintra, Portúgal dagana 20.-24. júlí 1998. Tilefni fundarins var að OSPAR-samningurinn, sem undirritaður var 1992, var að taka gildi, en hann kemur í stað eldri samninga: Óslóar og Parísarsamninganna, sem eru frá 1973 og 1974. Fjallað var um margháttuð málefni á fundinum í Sintra og eru þessi helst:

1. Varp lággeislavirks úrgangs í hafið.
Þegar hinn nýi OSPAR-samningur var undirritaður 1992 treystu Frakkar og Bretar sér ekki til að skuldbinda sig til að varpa ekki lággeislavirkum úrgangi í hafið eftir árið 2008, þegar gildandi bann gagnvart þeim fellur úr gildi. Í Sintra lýstu þessar tvær þjóðir því yfir að þær myndu ekki nota þær undanþágur sem eru í samningnum. Með þeirri yfirlýsingu og samþykktinni sem fylgir í kjölfarið bannar OSPAR-samningurinn allt varp geislavirks úrgangs í hafið. Bretar og Frakkar hafa ekki í raun varpað geislaúrgangi í hafið, en yfirlýsingin markar engu að síður tímamót, þar sem öll tvímæli eru tekin af um að slíkt sé bannað.

2. Stefnumótun hvað varðar losun geislavirkra efna í hafið.
Á fundinum kom greinilega í ljós breytt stefna Breta og Frakka varðandi losun geislavirkra efna í hafið. Fundurinn samþykkti samhljóða að markmið OSPAR varðandi geislavirk efni væri:
að koma í veg fyrir mengun hafsins frá jónandi geislun og draga verulega úr losun geislavirkra efna, með það framtíðarmarkmið að styrkur þeirra í umhverfinu verði nærri bakgrunnsgildum fyrir náttúrulega geislavirk efni og sem næst engin frá tilbúnum geislavirkum efnum.

Þetta er mjög mikilvægt markmið og í raun eru Bretar og Frakkar, einu þjóðirnar sem stunda endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi, að skuldbinda sig til að losun þeirra verði nánast engin fyrir árið 2020. Þetta er því mikilvægt pólitískt skref sem snýr að því að draga úr mengun N-Atlantshafsins vegna geislandi efna. Samþykkt um útfærslu markmiðanna ætti að leiða til þess að áhrifin munu koma fram á næstu árum og í síðasta lagi fyrir árið 2020.

3. Hættuleg efni.

OSPAR samþykkti metnaðarfulla stefnu varðandi meðhöndlun hættulegra efna, þ.á m. notkun svokallaðra þrávirkra lífrænna efna, sem Íslendingar hafa verið að berjast gegn. Þessi samþykkt mun þegar fram líða stundir hafa áhrif á flestalla starfsemi sem í dag veldur einhverri mengun sjávar.

4. Förgun úreltra borpalla

Þetta atriði snertir Íslendinga lítið, nema óbeint. Ríki sem liggja að Norðursjó hafa hins vegar margar hverjar lagst mjög gegn því að úreltir borpallar yrðu skildir eftir í sjónum. Samningaviðræður hafa staðið yfir í 3 ár og loks var samþykkt á fundinum lagalega bindandi ákvörðun sem er í stórum dráttum eftirfarandi:
Bannað verður að skilja eftir alla borpalla sem hætt er að nota eða varpa þeim í hafið með tveimur meginundantekningum.
Steyptir pallar, enda fyrirséð að þeir eru oftast best komnir þar sem þeir eru.
Undirstöður stálpalla sem vega meira en 10,000 tonn í heild sinni. Þarna er um að ræða undirstöður fyrir um 41 borpall, en ákvarðanir um förgun hvers og eins verður tekin eftir viðamikið mat, og ljóst að undantekningar verða í raun sárafáar.

5. Verndun búsvæða.

Samþykktur var viðauki við samninginn um verndun tegunda og búsvæða, sem stillir saman krafta aðildarríkjanna 18 til að vernda vistkerfi og tegundir sem eru í hættu. Það kemur hins vegar kemur skýrt fram að viðaukinn tekur ekki til stjórnunar á fiskveiðum eða nýtingar sjávarspendýra.

6. Ýmsar aðgerðir.

OSPAR setti fram vinnuáætlun til nokkurra ára og tók sameiginlega nokkrar ákvarðanir. Sú sem varðar Íslendinga mest er ákvörðun um losun mengandi efna frá áliðinaði. Íslendingar höfðu mikil áhrif á þessa ákvörðun, enda á margan hátt með tækni sem mengar hafið minna en tækni sem notuð er í sumum öðrum aðildarlöndum OSPAR.

Fréttatilkynning nr. 29/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum