Hoppa yfir valmynd
11. júní 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ný reglugerð um kjöt og kjötvörur


Umhverfisráðuneytið hefur gefið út reglugerð um kjöt og kjötvörur, þar sem skilgreindar eru leyfilegar merkingar á kjötvörum og settar reglur um markaðssetningu þeirra og um eftirlit og rannsóknir. Reglugerðin er sett í því skyni að tryggja samræmi í merkingum á kjötvörum fyrir neytendur og reglulegt eftirlit með gæðum og markaðssetningu.

Með reglugerðinni eru í fyrsta sinn settar reglur um skilgreiningar á vöruflokkum og gæðamerkingum, sem tryggja eiga neytendum að samræmi sé á milli heiti vöru og innihalds hennar. Þannig skal heitið "nautakjöt" ekki notað sem samheiti fyrir kjöt af nautgripum, t.d. um kýrkjöt, heldur einungis notað um ungneytakjöt. Við auglýsingu og dreifingu skulu kjöt og kjötvörur vera í samræmi við skilgreiningar og reglur um gæðaflokkun, en jafnframt skal uppfylla ákvæði um heiti sem taka til nafnverndar. Þegar notuð eru alþjóðleg heiti kjötvara önnur en fram koma í reglugerðinni skal fylgja hefðbundnum aðferðum, uppskriftum og útliti þeirra.

Innihaldslýsing skal veita nákvæmar upplýsingar um samsetningu vörunnar. Skylt er að gefa upplýsingar um næringargildi á umbúðum kjötvara, en ekki um hreinar kjötvörur og kjöt með beini. Sérmerking umbúða með fullyrðingum um innihaldsefni, s.s. merkingin "lítið salt" eða "fituskert", eru aðeins heimilar fyrir vörur sem uppfylla skilyrði ákvæða í reglugerðinni um slíkar merkingar.

Matvælafyrirtæki skulu á hverju ári rannsaka a.m.k. eitt sýni af hverri vörutegund sem fellur undir gæðakröfur til að kanna hvort varan er í samræmi við þessar kröfur. Heimilt er að veita matvælafyrirtækjum undanþágu frá þeirri kröfu ef eftirlitsaðili telur að innra eftirlit fyrirtækisins sé fullnægjandi trygging fyrir því að framleiðsluvörur þess samræmist settum kröfum.

Ákvæði reglugerðarinnar gilda um vörur sem framleiddar eru hér á landi og innfluttar vörur frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Vörur sem framleiddar eru á Evrópska efnahagssvæðinu skulu uppfylla ákvæði þessarar reglugerðar eða löggjöf sem gildir í framleiðslulandinu.

Fréttatilkynning nr. 24/1998
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum