Hoppa yfir valmynd
29. maí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra fellst á Háreksstaðaleið

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur fellt úrskurð vegna kæru á úrskurði skipulagsstjóra varðandi mat á umhverfisáhrifum hringvegar úr Langadal að Ármótaseli í Norður-Múlasýslu, þ.e. eftir svokallaðri Háreksstaðaleið. Úrskurður umhverfisráðherra er á þá leið að úrskurður skipulagsstjóra skuli óbreyttur standa, að uppfylltum tveimur skilyrðum, verði Háreksstaðaleið fyrir valinu.

Fyrra skilyrðið er að gerð verði framkvæmdaáætlun um endurheimt votlendis, sem myndi tapast vegna vegalagningarinnar, í samræmi við stefnu stjórnvalda um endurheimt votlendis. Skal ráðist í mótvægisaðgerðir til að endurheimta votlendi á fyrsta ári framkvæmda. Þá er þess krafist að efnistökustöðum verði fækkað eftir því sem kostur er og haft um það samráð við Náttúruvernd ríkisins.

Í úrskurði skipulagsstjóra frá 3. október 1997 vegna frumathugunar á lagningu hringvegar í Norður-Múlasýslu var farið fram á frekara mat á umhverfisáhrifum, þar sem fyrirhuguð Háreksstaðaleið yrði borin saman við tvo aðra kosti: Að byggja upp núverandi veg um Möðrudalsfjallgarða og að leggja veg um Sauðár- og Gestreiðarstaðaskarð. Auk þess var óskað eftir því að nánari grein yrði gerð fyrir þeim kosti að vegtenging milli Norður- og Austurlands verði um Fjöllin, Vopnafjörð og Hlíðarfjöll með jarðgöngum undir Hellisheiði.

Að fengnum niðurstöðum úr frekara mati taldi skipulagsstjóri í úrskurði sínum 15. apríl 1998 veg um Sauðár- og Geistreiðarstaðaskarð óásættanlegan frá umhverfissjónarmiðum, en féllst á Háreksstaðaleið og endurbyggingu núverandi leiðar, ásamt mögulegum breytingum á veglínunni um Lækjadal, Þrívörðuháls og Lönguhlíð. Þessi úrskurður var kærður til umhverfisráðherra.

Í úrskurði skipulagsstjóra segir að helstu umhverfisáhrif af lagningu vegar um Háreksstaðaleið séu vegna framkvæmda á ósnortnu, grónu landi. Vegurinn liggi á köflum yfir votlendi og fari yfir svæði, sem viðkvæm eru fyrir uppblæstri. Í niðurstöðu umhverfisráðuneytisins segir að helsti ávinningurinn af lagningu vegar eftir Háreksstaðaleið sé vegtæknilegur: Snjósöfnun verði minni en á núverandi leið, veghalli minni og umferðaöryggi meira, auk þess sem leiðin á milli Vopnafjarðar ondurnúverandi vegar muni á hinn bóginn hafa minni neikvæð umhverfisáhrif en lagning vegar eftir Háreksstaðaleið. Verði Háreksstaðaleið valin sé því rétt að ráðast í mótvægisaðgerðir til þess að draga úr hinum neikvæðu umhverfisáhrifum, m.a. með því að endurheimta votlendi á Austurlandi sem er a.m.k. til jafns að flatarmáli við það sem spillist.
Fréttatilkynning nr. 22/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum