Hoppa yfir valmynd
11. október 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðstefna um umhverfismál á norðurslóðum í Brussel

Íslensk stjórnvöld standa fyrir ráðstefnu í Brussel í dag, mánudaginn 11. október, undir yfirskriftinni "Umhverfisþættir norðlægu víddarinnar". Í titlinum er vísað í hina sk. norðlægu vídd Evrópusambandsins, sem Finnar hafa lagt áherslu á í formennskutíð sinni í ESB og miðar m.a. að lausn vandamála á Eystrasaltssvæðinu og NV-Rússlandi, auk heimskautasvæðanna. Á ráðstefnunni verða kynnt drög að skýrslu um stefnu ESB í umhverfismálum varðandi norðlægu víddina. Auk þess verða málefni hafsins á norðurslóðum til sérstakrar umfjöllunar á ráðstefnunni, m.a. geislamengun og verndun Eystrasaltsins og heimskautasvæðanna.

Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, mun ávarpa ráðstefnuna. Ísland gegnir nú formennsku í Norrænu ráðherranefndinni, en í formennskuáætlun Íslands er að finna margar sömu áherslur og í norðlægu víddinni hjá ESB, sem er einn helsti hvati þess að halda ráðstefnuna í Brussel.

Í sömu ferð fer Siv á fund norrænna umhverfisráðherra, sem haldinn er í Lúxemborg í tengslum við umhverfisráðherrafund ESB. Þá heldur ráðherra erindi á ráðstefnu sem Norræna ráðherranefndin heldur í Prag 14. október. Hún mun þar fjalla um norrænt samstarf í ljósi evrópska samrunaferilsins og reynslu Norðurlanda af svæðisbundnu samstarfi. Hún mun að auki hitta umhverfisráðherra Tékklands að máli.

Fréttatilkynning nr. 20/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum