Hoppa yfir valmynd
20. apríl 1999 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Viðburðir á Degi umhverfisins

Dagur umhverfisins verður haldinn í fyrsta sinn á Íslandi 25. apríl næstkomandi. Umhverfisráðherra mun afhenda viðurkenningar umhverfisráðuneytisins til fyrirtækja og fjölmiðla á Café Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal kl. 13 þann dag. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir. Eftirfarandi aðrir viðburðir verða á Degi umhverfisins, sem umhverfisráðuneytinu er kunnugt um:

• Akranes:
Dagur umhverfisins - Dagskrá við Blautós
Í tilefni af Degi umhverfisins 25. apríl býður umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar bæjarbúum á fyrirlestur um fuglalíf, fuglaskoðun og skoðunarferð út á Innsta-Vogsnes.
14:00 Fuglalíf Blautóssins, Guðmundur A. Guðmundsson frá Fuglaverndarfélagi Íslands heldur erindi í félagsheimili hestamanna Æðarodda.
15:00 Léttar veitingar í félagsheimilinu.
15:30 Gengið frá Æðarodda út á Innsta-Vogsnes undir leiðsögn kunnugra.
17:30 Áætluð dagskrárlok.

• Árborg:
"Dagur umhverfisins"
Umhverfisnefnd og íþrótta- og tómstundanefnd vilja í tilefni dagsins hvetja íbúa Árborgar til að skilja bílinn eftir heima sé það mögulegt. Jafnframt hvetja nefndirnar til almennrar útivistar í sveitarfélaginu enda er fjölbreytt dagskrá í boði (sjá meðfylgjandi blað).

• Egilsstaðir:
Félag um verndun hálendis Austurlands heldur fund með frambjóðendum til Alþingis í Golfskálanum að Ekkjufelli kl. 14, þar sem þeir kynna stefnu flokka sinna í málefnum hálendisins.

• Hólmavík:
Opinber umræðufundur með umhverfisnefnd Hólmavíkurhrepps í Félagsheimilinu á Hólmavík, kl. 16. Í framhaldi af Deginum verður efnt til samkeppni meðal grunnskólanema um hönnun plakats til að minna á gildi þess að ganga vel um umhverfið.

• Hveragerði/Ölfushreppur:
Opið hús er í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í tilefni 60 ára afmæli skólans. Garðyrkjuskólinn, sveitarfélögin í Hveragerði og Ölfushreppi með grunnskólum, Dvalarheimilið Ás, Heilsustofnun NLFÍ og Ölfusborgir undirrita samstarfssamning um umhverfisátak á Degi umhverfisins að viðstöddum fulltrúum fjölmiðla kl. 15.

• Reykjavík:
Fuglaverndarfélag Íslands í samstarfi við Magnús Magnússon býður almenningi á kvikmyndasýningu í Bíósal Hótel Loftleiða (við ráðstefnusali í Suðurálmu). Frumsýnd verður kvikmyndin "Undir smásjánni - Mývatn", sem fjallar um lífríki Mývatns og starf Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, þar sem fylgst er með breytingum á fuglastofnum og vatnalífi. Sýningartími er kl. 16:00 fyrir almenning (boðsgestir kl. 14:00). Einnig verður sýnd kvikmyndin Hinn helgi örn sem Magnús Magnússon gerði, en meginþema hennar er verndun arnarins.

• Reykjavík:
Sýningunni Samspil Manns og Náttúru í Perlunni lýkur á Degi umhverfisins, 25. apríl. Hún er opin frá 13 til 18 þann dag. Fjölmörg fyrirtæki og samtök taka þátt í sýningunni, en á henni er mikið úrval vöru, þjónustu og upplýsingum, sem teljast má umhverfisvæn, auk þess sem fyrirlestrar um umhverfismál verða á dagskrá. Á Degi umhverfisins kynna m.a. Umhverfisverndarsamtök Íslands og Sjálfboðaliðasamtök um náttúruvernd starfsemi sína á sýningunni.

• Reykjavík/Suðurnes:
Ferðafélag Íslands verður með tvær ferðir í tilefni af Degi umhverfisins þann 25. apríl:
- Kl.10:30 Hvalsnes - Básendar - Djúpivogur. Gengið um gamla þjóðleið á Suðurnesjum.
- Kl.13:00 Stafnes - Básendar - Sandgerði. Fjölskylduferð.
Fréttatilkynning nr. 5/1999
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum