Hoppa yfir valmynd
29. júlí 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum

Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra hefur sett reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum, þar sem kveðið er á um búnað, hreinlæti og þrif á sund- og baðstöðum, hreinsun og sótthreinsun baðvatns, aðbúnað gesta og mengunarvarnir.

Einnig er kveðið á um öryggi sundlaugargesta í reglugerðinni. Sund- og baðstöðum er gert skylt að hafa laugargæslu og viðurkenndan búnað til skyndihjálpar. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu hafa staðist hæfnispróf, sem nánar er kveðið á um í viðauka með reglugerðinni. Starfsfólk sundstaða skal fá reglulega starfsþjálfun, þ.m.t. þjálfun í skyndihjálp og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Haldin skal skrá um slys í og við laugar og hún höfð aðgengileg heilbrigðiseftirliti.

Innstreymi í laugar og vatn í sturtum má ekki vera heitara en 55˚C þegar það er tekið til blöndunar með köldu vatni og skal það tryggt með segulrofa eða öðrum viðurkenndum búnaði. Merkja skal greinilega hitastig í setlaugum og aðra þætti varðandi öryggi og slysahættu, s.s. dýpi lauga og hálku á laugarbökkum.

Í kafla um heilnæmi vatns í laugum er m.a. að finna ákvæði um styrk klórs, sýrustig og endurnýjunarhraða vatnsins. Vatn sem er notað í laugar skal vera tært og uppfylla kröfur sem gerðar eru til neysluvatns varðandi örveruinnihald.

Heilbrigðisnefndir skulu hafa eftirlit með að farið sé eftir ákvæðum reglugerðarinnar, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins. Sund- og baðstaðir skulu hafa starfsleyfi heilbrigðisnefndar viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis.

Reglugerðin tekur gildi 30. júlí 1998.

Fréttatilkynning nr. 30/1998
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum