Hoppa yfir valmynd
28. desember 1998 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Bæklingur um mengun hafsins


Umhverfisráðuneytið hefur gefið út bækling um mengun hafsins í tilefni af Ári hafsins 1998. Bæklingurinn, sem ber heitið Mengun á Íslandsmiðum, fjallar í stuttu máli um helstu uppsprettur mengunar, ástandið á Íslandsmiðum og aðgerðir gegn mengun hafsins, jafnt heima fyrir sem á alþjóðavettvangi. Áhersla er lögð á að mengun sjávar við Íslands sé með því minnsta sem þekkist, en að árvekni og aðgerða sé þörf, því sum mengunarefni sem áður fundust helst í innhöfum og við strendur iðnríkja finnast nú í úthöfunum og lífríkinu þar og kunna að valda vanda í náinni framtíð verði ekki gripið í taumana.

Það er ánægjulegt að á Ári hafsins skuli tveimur mikilvægum áföngum í vernd hafsins gegn mengun á alþjóðavettvangi hafa verið náð með gildistöku sk. OSPAR-samnings um vernd NA-Atlantshafsins og með upphafi samningaviðræðna um takmörkun á losun þrávirkra lífrænna efna, sem hefur lengi verið baráttumál Íslendinga. Hér innanlands hafa einnig verið stigin stór skref í bættri umgengni við hafið nýlega, s.s. með stórfelldum umbótum á fráveitukerfi á höfuðborgarsvæðinu og víðar og með framkvæmd laga um spilliefnagjald, þar sem skilvirku kerfi hefur verið komið upp fyrir söfnun og eyðingu hættulegustu efnanna, sem ella hefðu lent að stórum hluta í sjónum.

Bæklingnum verður dreift í alla skóla landsins og víðar. Er það von umhverfisráðuneytisins að útgáfa hans verði til þess að efla þekkingu og áhuga á því mikilvæga hagsmunamáli Íslendinga að halda hafinu hreinu og ómenguðu, en aukin almenn þekking á vandanum er undirstaða góðrar umgengni við hafið og náttúruna.

Fréttatilkynning nr. 40/1998
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum