Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2000 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Úrskurður umhverfisráðherra um kísilgúrvinnslu í Mývatni




Umhverfisráðherra hefur í dag fellt úrskurð um kísigúrvinnslu úr Mývatni þar sem felldur er úr gildi úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um kísilgúrvinnslu á námusvæði 1 í Syðriflóa vegna skorts á gögnum. Jafnframt staðfestir umhverfisráðherra úrskurð skipulagsstjóra um heimild til vinnslu á námusvæði 2 að uppfylltum skilyrðum og takmarkar vinnsludýpt við 6,5 m meðaldýpt.
Í kæru Kísiliðjunnar í Mývatnssveit var farið fram á heimild til efnistöku á svæði 1. Á hana er ekki fallist vegna þess að gögn skortir. Þó að ný gögn hafi komið fram eftir að úrskurður skipulagsstjóra féll, þurfa þau skv. reglugerð um mat á umhverfisáhrifum 179/1994 að fá almenna kynningu og umfjöllun. Kísiliðjan getur farið að nýju með framkvæmdina í mat á umhverfisáhrifum á grundvelli þessara nýju gagna óski hún þess.
Meginkæruefni annarra kærenda snerust um að felldur yrði úr gildi úrskurður skipulagsstjóra ríkisins um heimild til efnistöku á svæði 2. Við athugun og yfirferð á kærum og umsögnum leitaði ráðuneytið ráðgjafar hjá Gunnari Steini Jónssyni, líffræðingi og Gunnari Guðna Tómassyni verkfræðingi, um þá þætti sem vörðuðu setflutninga og lífríkið.
Í úrskurðinum fellst ráðuneytið á efnistöku á námusvæði 2 niður á 6,5 metra meðaldýpt, með nýju skilyrði þess efnis að framkvæmdaraðili leggi fram tillögu að vöktunaráætlun vegna nýmyndaðs sets. Vöktunaráætluninni er ætlað að leiða í ljós hlutdeild nýmyndaðs sets í heildaruppsöfnun sets á námusvæðum í Syðriflóa. Önnur skilyrði í 11 liðum sem fram koma í úrskurði skipulagsstjóra um efnistöku á námusvæði 2 standa óbreytt. Þar er kveðið á um að Kísiliðjan kortleggi námusvæði 2 ásamt næsta nágrenni áður en til framkvæmda kemur. Þá er framkvæmdaraðila einnig ætlað að leggja fram tillögu að vöktunaráætlun vegna hugsanlegra áhrifa námuvinnslu á strauma og setflutninga, einnig á fugla- og dýralíf ásamt tillögum um athuganir á landnámi hágróðurs og annarra botnssamfálaga á röskuðum svæðum. Til viðbótar er gerð sú krafa til Kísiliðjunnar að lagðar verði fram útfærðar hugmyndir og áætlanir um prófanir mögulegra mótvægisaðgerða gegn áhrifum námuvinnslu á strauma og setflutninga áður en farið verður í námuvinnslu á nýju svæði.
Því kæruatriði er hafnað að kísilgúrnám sé í andstöðu við markmið laga nr. 36/1974 um vernd Mývatns og Laxár. Í 5. gr. laganna er beinlínis gert ráð fyrir starfssemi Kísiliðjunnar á svæðinu og því fellst ráðuneytið ekki á að kísilgúrnám eitt og sér sé í andstöðu við markmið laga nr. 36/1974.
Þá telur umhverfisráðuneytið að vinnsla kísilgúrs á svæði 2 samrýmist ákvæðum Ramsarsamningsins um vernd votlendis, þar sem skynsamlag nýting sé í takt við ákvæði samningsins.
Ráðuneytið felst á að ekkert í þeim gögnum sem lögð voru fram við mat á umhverfisáhrifum kísilgúrvinnslu við Mývatn bendi til þess að námuvinnsla hafi veruleg áhrif á fuglalíf og fæðuskilyrði og viðgang silungs þegar tekið er tillit til þeirra mótvægisaðgerða og takmörkun á áhrifasvæði sem krafa er gerð um í úrskurði skipulagsstjóra ríkisins.


Fréttatilkynning nr. 22/2000
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum